Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Umhverfisvæn og nýta allt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ágústa Magnúsdóttir og Gustav Jóhannsson voru á meðal þeirra hönnuða sem komu fram á HönnunarMars í ár. Þau sýndu nýja húsgagnalínu sem byggð er á spgegluðum formum, bæði í versluninni Akkúrat og sýningarrými þeirra að Funahöfða 3.

Nafn: Ágústa Magnúsdóttir  / Gústav Jóhannsson

Aldur: 38 / 44

Menntun: Msc í Medialogy / Húsgagnasmiður

Var nýja línan lengi í þróun og vinnslu? 

Þessi lína varð eiginlega til í kjölfar HönnunarMars í fyrra. Þá bjuggum við til ógrynni af nýjum vörum og þar á meðal bogastóla. Við höfum svo verið að framleiða þá síðastliðið ár og þeir gátu af sér afskurði af bogum sem okkur þótti spennandi að reyna að vinna með. Við reynum eftir bestu getu að nýta allt efni sem kemur inn á verkstæðið til fulls.

Hvernig var hönnunarferlið?

- Auglýsing -

Hjá okkur er það yfirleitt nokkuð handahófskennt og er undirstaðan undantekningarlaust í efninu. Í þessu tilfelli stóðum við með hálfhring í höndunum og út frá því veltum við fyrir okkur hvernig við gætum sett þessa boga saman til að mynda form sem við gætum nýtt. Í mastersnáminu mínu mundi ég eftir að hafa lesið um það hvernig mynstur hafa áhrif á hugann, hvernig þau geta leitt til þess að við löðumst að einhverju en hvernig þau geta líka gert það að verkum að við fáum leið á einhverju ef þau eru ekki brotin upp.
Þessi húsgögn eru unnin með þetta í huga, við ákváðum að spegla formin og mynda úr þeim spegla. Hönnunin hjá okkur er mikið ítrunarferli og við höfum verið að hanna þennan bogastól í mörg ár. Beinagrindin af honum stóð lengi vel inni á verkstæði hjá okkur, þvinguð saman sem einhverskonar hugmynd en það tók okkur fjögur ár að ná lokaútgáfunni sem við teljum okkur vera komin niður á núna.

Eru þið umhverfisvæn í ykkar hönnun?

Hjá AGUSTAV leggjum við sérstaklega mikið upp úr því að vera umhverfisvæn. Við notum eingöngu umhverfisvænan efnivið og eiturefnafríar olíur. Við nýtum allt efni sem fellur til á verkstæðinu allt frá afskurði sem verður að nýjum vörum að sagi úr vélunum sem hefur nýst í hesthúsum. Þar að auki þá gróðursetjum við tré fyrir hverja vöru sem við seljum.

- Auglýsing -

Hefur hönnun, smíði og sköpun alltaf verið ykkur hugleikin?

Smíðin er í æðunum á Gústa má segja og húsgagnasmíðin hafði blundað í honum.
Ég var svo sjálf farin að teikna húsgögn sem unglingur og hef alla tíð haft mikla þörf fyrir að skapa í einhverju formi og vinna með hluti myndrænt.

Í sameiningu náum við svo einhverjum fallkrafti, hugmyndir kvikna og formast á milli okkar, jafnvel verða að einhverju nýju í samtalinu, mótast svo í höndunum og verða að lokum að fullmótuðum hlut.

Á hvaða tíma sólarhringsins vinni þið best?

Hvenær sem er þegar það fæst friður fyrir börnunum … annars sinnum við yfirleitt hugmyndavinnu á kvöldin og vinnum úr henni á daginn.

Hvað finnst þér um íslenska hönnun?

Það er margt áhugavert að gerast á Íslandi en ég held að það sem hamli íslenskri hönnun kannski mest séu framleiðslumöguleikarnir. Hönnunarsagan er ekki eins fastmótuð hér og hún er á hinum Norðurlöndunum en við við sjáum það sem einn helsta kost hönnunar á Íslandi; það að hún er í mótun og hún getur orðið það sem við viljum.

Hvernig er að markaðssetja sig sem hönnuður í dag?

Það er erfitt. Við sköpum allan daginn og hugsum í lausnum en erum ómögulegir sölumenn og finnst erfitt að bera okkar eigin kyndil.

Eftirlætishönnuður?

Maðurinn á ekki séns í náttúruna.

Hvar fást húsgögnin frá AGUSTAV?

Á síðunni okkar AGUSTAV.is og svo erum við með opið sýningarrými á Funahöfða 3 þar sem hægt er að koma og skoða og versla. Bráðlega má einnig finna úrval af vörum frá okkur í hönnunarversluninni Akkúrat.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -