Guðrún Lára Pétursdóttir er einstakur fagurkeri búsettur í gamla Vesturbæ Reykjavíkur ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum. Hún var alveg til í að dekka upp páskaborð fyrir Hús og híbýli sem er innblásið af vorinu og páskahátíðinni sem framundan er.
„Páskarnir eru vorhátíð þar sem við fögnum því að sjá fyrir endann á vetrinum. Blár himininn, grænt gras og blóm. Ég reyndi að endurspegla þetta í litunum; grænir tónar og pastelbleikt ráða ríkjum en pastelliti tengi ég við vorið. Ég vildi ekki hafa þetta of formfast heldur afslappað”.
Blóm ómissandi á borðið
Hvað er að þínu viti ómissandi þegar borð er dekkað upp?
„Blóm, ef ég er að gera fínt. Það virðist vera alveg sama hvar ég bý, ég verð alltaf málkunnug afgreiðslufólki í nærliggjandi blómabúðum mjög fljótlega. Ég fer langmest í Blómagallerí á Hagamel. Þær eru duglegar að kaupa inn falleg blóm sem eru ekki til hvar sem er. Ég bjó lengi í Svíþjóð, þannig að fyrir mér er vorið blómstrandi kirsuberjagreinar, asíusóleyjar og anemónur og þær sjá um að uppfylla þessar þarfir mínar fyrir skandinavískt vor”.
Eggin lituð með rauðkáli
Guðrún notast mikið við náttúruefni eins og hör en bæði dúkurinn á borðinu og servíetturnar eru úr því efni. Stellinu, sem er frá Royal Copenhagen, hefur Guðrún safnað í gegnum árin og keypti hún grunninn „second hand” en blandar honum oft saman við nýrri hluti á mjög smekklegan hátt. Glösin eru keypt í sænskri antikbúð. Eggin á borðinu litaði Guðrún síðan sjálf með rauðkáli og hún segir uppskriftina vera einfalda:
„Ég saxaði niður rauðkál og sauð það í vatni í um 40 mínútur, þá slökkti ég undir og lét það kólna. Svo tók ég rauðkálið upp úr, bætti hvítvínsediki í vökvann og setti ég eggin ofan í. Fyrstu eggin tók ég upp úr eftir um það bil 90 mínútur en þau sem voru lengst í vökvanum voru þar yfir nótt. Því lengur sem eggin eru í vökvanum því dekkri verða þau og þótt vökvinn sé dökkfjólublá verða eggin grænblá á litinn,” segir Guðrún.
Lífið í lit
Seint á síðasta ári kom út bókin Lífið í lit í þýðingu Guðrúnar Láru og var ekki hægt að ljúka heimsókninni án þess að minnast á þá frábæru bók sem er skrifuð af Dagny Thurmann-Moe litasérfræðingi. Guðrún segir að bókin hafi breytt miklu í hennar lífi, ásamt því að vera frábært uppflettirit, enda tekur hún á öllu því sem við kemur litum í lífinu almennt, inniheldur mikinn fróðleik og gefur góða leiðsögn um litanotkun.
„Þegar ég fékk bókina fyrst þá var ég búin að vera að spá í að mála hjá mér og var með bláar málningaprufur en eftir lesturinn langaði mig að nota liti meira. Ég vil helst ekki mála í tískulitum annað hvert ár og fannst því mikilvægt að reyna að átta mig á því hvaða litir höfða til mín svona almennt. Blár hefur alltaf verið uppáhaldsliturinn minn og þess vegna valdi ég að mála stofurnar bláar. Blár fer líka svo vel við innbúið mitt,“ segir Guðrún.
Fleiri myndir má sjá í glænýju og spennandi Hús og híbýli sem kom út 28. mars!
Texti / Stefanía Albertsdóttir
Ljósmyndari / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir