Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.3 C
Reykjavik

Útsýnisíbúð í Holtunum innréttuð á einstakan hátt 

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í Brautarholti í Reykjavík býr Björg Flygenring Finnbogadóttir, viðskiptafræðingur og nemandi í Parsons school of design í New York. Húsnæðið var áður iðnaðarhúsnæði og byggt árið 1960. Íbúðin er á efstu hæð þar sem vinnustofur voru áður en þeim var breytt í íbúðir á síðasta ári.

„Það sem heillaði mig mest er hvað íbúðin er björt, með stórum gluggum í bæði norður og suður. Ég elska líka hvað hátt er til lofts og svo finnst mér heillandi hvernig loftið hallar sem er í takt við byggingarstíl þess tíma þegar húsið var byggt. Útsýnið úr svefnherberginu í norður er víðáttumikið og ég sé bæði Esjuna og sjóinn.

Björg Flygenring Finnbogadóttir.

Íbúðin er líka með stórar svalir í suður en ég hef ekki getað notið þeirra mikið þetta sumarið. Svo langar mig að nefna hverfið sem íbúðin er í. Ég hef trú á Holtunum sem vaxandi hverfi og held að hér muni gerast spennandi hlutir á næstu árum. Hér er ég nálægt bænum og allri helstu þjónustu. Hluti hverfisins er enn þá ómótað fyrrum iðnaðarhverfi en mér finnst allt vera að lifna hér við og er viss um að með fleiri íbúðum á þessu svæði verði þetta enn skemmtilegra og huggulegra svæði,“ segir Björg.

„Ég er alin upp af fagurkera, mömmu minni. Hún hefur alltaf lagt áherslu á að hafa fallegt umhverfi og að gera heimili sitt huggulegt fyrir sjálfa sig og engan annan,“ segir Björg.

Björg er mikill fagurkeri og hefur gott lag á að blanda saman hlutum úr ólíkum áttum sem gefa íbúðinni einstaklega fallega heildarmynd.

Björg blandar gömlu og nýju saman.

„Ég er mjög hrifin af því að blanda saman gömlum og nýjum munum. Ég er með persónuleg tengsl við alla hlutina mína og þetta er samansafn úr mörgum áttum og tímabilum. Ég var svo heppin að foreldrar mínir fluttu fyrir um þremur árum og minnkuðu við sig. Ýmis húsgögn sem ekki gátu fengið pláss á nýja heimilinu þeirra rötuðu því til mín. Þá hefur systir mín líka verið örlát og gefið mér fína hluti sem hún hafði ekki not fyrir lengur,“ segir Björg.

Með fókus á vandaða hluti

„Foreldrar mínir hafa alltaf verið mikið fyrir antík og gamla hluti og þeir hafa fylgt mér hingað. Til viðbótar hafa svo bæst við aðrir hlutir. Ég er til dæmis með skáp frá langömmu minni, kúaskinnsstól frá 1980, nútímalegt skrifborð úr Habitat sem ég fékk í fermingargjöf, sófaborð sem foreldrar mínir létu sérhanna og matarborð frá 1920 sem ég flutti heim með mér frá Svíþjóð.

„Foreldrar mínir hafa alltaf verið mikið fyrir antík og gamla hluti og þeir hafa fylgt mér hingað.“

Það segir ýmislegt að þegar ég flutti hingað þá vantaði mig ekki nein húsgögn nema einn sófa og endaði á að kaupa mér hann í IKEA. Einhvern veginn kemur þetta heim og saman í þessari íbúð. Ég myndi því segja að stíllinn sé úr öllum áttum, tilviljanakenndur en með fókus á vandaða og persónulega hluti,“ segir Björg aðspurð hvernig hún myndi lýsa eigin stíl.

- Auglýsing -
Mynd / Hallur Karlsson

Finnst gaman að fara á flóamarkaði

Björgu finnst skemmtilegt að fara á nytjamarkaði og finna þar fallega hluti með notagildi.

„Ég er mikið fyrir gamla og notaða hluti og satt að segja finnst mér Nytjamarkaðurinn í Kópavogi frábær búð. Þar hef ég keypt mér alls konar hluti eins og ljós, hillur og glös. Þegar flutt er í sína fyrstu íbúð vantar margt smádót, til dæmis í eldhúsið, og er kjörið að kaupa það notað. Alveg jafngott, umhverfisvænt og ódýrt,“ segir Björg en bætir við henni finnist einnig gaman að fara á flóamarkaði erlendis en hún hefur ferðast víða og búið í nokkrum löndum.

- Auglýsing -
Björg fær helst innblástur úr dönskum hönnunarblöðum og á Pinterest en sú sem hefur veitt henni mestan innblástur er mamma hennar.

„Mér finnst þó vanta til Íslands almennilegan flóamarkað líkt og eru til dæmis í Berlín. Ég var í Tókýó í fyrra og þar fannst mér gaman að skoða litlar hönnunar- og interior-verslanir. Nútímalegur japanskur stíll er fágaður, einfaldur og vandaður en með hlýlegum og sérkennilegum áherslum,“ segir hún.

Aðspurð hvaðan hún sækir innblástur segist Björg oft skoða dönsk hönnunarblöð og skoða Pinterest en sú sem hefur veitt henni mestan innblástur er mamma hennar.

„Ég er alin upp af fagurkera, mömmu minni. Hún hefur alltaf lagt áherslu á að hafa fallegt umhverfi og að gera heimili sitt huggulegt fyrir sjálfa sig og engan annan. Ég hef haft þetta að leiðarljósi þegar ég innrétta mína íbúð. Ég nenni ekki að fylgja öllum straumum og stefnum sem eru í gangi heldur vil ég umkringja mig með hlutum sem mér finnast fallegir. Mamma mín hefur einnig kennt mér að treysta mest á minn eigin smekk þegar kemur að því að velja hluti fyrir heimilið svo ég held að ég geti sagt með sanni að hún sé minn stærsti innblástur,“ segir Björg að lokum.

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -