Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Draumur að hanna og smíða allar innréttingar í húsið sjálf

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hrefna og Benedikt Óskar búa í 167 fermetra raðhúsi á einni hæð í nýju hverfi í Grindavík. Húsið keyptu þau fokhelt af fyrirtæki foreldra Hrefnu þar sem Hrefna starfar við framleiðslu á innréttingum.

Þær eru sjálfsagt teljandi á fingrum annarrar handar húsmæðurnar sem geta stært sig af því að hafa ekki aðeins hannað heldur einnig smíðað allar innréttingar og hurðir á heimilinu en það er einmitt það sem Hrefna gerði enda hæg heimatökin. Hún, ásamt systrum sínum og móður, hefur síðan 2013 unnið að hönnun og framleiðslu húsgagna og muna fyrir heimilið undir nafninu VIGT.

Fokhelt húsið veitti Hrefnu kærkomið tækifæri til að innrétta heimilið algjörlega eftir eigin höfði en það verk vann hún, eins og svo margt annað, í nánu samstarfi með systrum sínum, Guðfinnu og Örnu. „Ég var svo heppin að Guðfinna hafði búið í húsi eins og þessu þannig að hún kom með marga góða punkta sem hjálpuðu okkur heilmikið. Arna sá síðan um að útfæra hugmyndir og að koma þeim á blað. Benedikt og pabbi voru einnig ótrúlega duglegir við að koma öllu í framkvæmd.“

Eldhúsinnréttingin er úr svartbæsuðum aski. Heimilistæki eru frá AEG og keypt í Bræðrunum Ormsson, blöndunartæki koma frá Tengi en höldurnar voru sérsmíðaðar úr stáli og pólýhúðaðar svartar.

Eldhúsið hjá þeim Hrefnu og Benedikt er dásamlega stílhreint og frábær vitnisburður um einstaklega vandað handbragð Hrefnu sem segist þegar hafa verið komin með nokkuð vel mótaðar hugmyndir áður en ráðist var í framkvæmdir.

„Ég lagði upp með að hafa allar innréttingar dökkar og stílhreinar og einnig var ég ákveðin í að hafa enga efri skápa í eldhúsi.“ Allar innréttingar í húsinu eru úr aski sem hún síðan bæsaði svartan. Svartan granítstein á borðplötu og eyju fengu þau Benedikt hjá Granítsteinum í Hafnarfirði. Stílhreina loftljósið í eldhúsinu kemur frá Lumex en Hrefna segir töluverðan tíma hafa farið í að ákveða nákvæmlega hvernig ljós hún vildi. Uppsetning á ljósinu var punkturinn yfir i-ið, þegar það var komið var eldhúsið klárt.

- Auglýsing -

Að ráðum Guðfinnu var ákveðið að hafa vaskinn ekki í eyjunni sem skilur eldhús frá borðstofu og stofu. „Í veislum og matarboðum myndast oft skemmtileg stemning þar sem fólk safnast saman í kringum eyjuna til að spjalla og þá er mun snyrtilegra að hafa vaskinn annars staðar,“ segir Hrefna.

Ítalska eldhúsljósið frá æskuheimilinu

- Auglýsing -

Ljósið sem svífur líkt og í lausu lofti yfir hringlaga borðstofuborðinu er ein af þessum dásamlegu og tímalausu hönnunarperlum sem Ítalir hafa svo rausnarlega lagt til hönnunarsögunnar. Frisbi er hönnun og hugverk hins þekkta ítalska meistara Achille Castiglioni sem hannaði ljósið fyrir ítalska ljósaframleiðandann Flos árið 1978. Frisbi er frábær vitnisburður um styrkleika Castiglioni sem hönnuðar en hann var ekki síst þekktur fyrir tæknilega vel útfærða hönnun á lömpum og ljósum sem oftar en ekki ná að dansa á mörkum hönnunar og listar.

„Ljósið var alltaf í eldhúsinu hjá mömmu og pabba en þau keyptu það í Casa á sínum tíma.“ segir Hrefna sem segir ljósið hafa komist í hennar hendur eftir að eldhúsið var tekið í gegn á æskuheimilinu sem endaði með því að ljósið passaði ekki lengur þar inn.

„Ég var svo heppin að fá að taka það með mér þegar ég flutti að heiman. Það sem er svo skemmtilegt við ljósið er að það vakti aldrei neina sérstaka athygli fyrr en við fluttum hingað en hér nýtur það sín svo vel.“

Það sem er svo skemmtilegt við ljósið er að það vakti aldrei neina sérstaka athygli fyrr en við fluttum hingað.

Hringlagað borðstofuborðið er frá VIGT og er það fáanlegt í þremur mismunandi stærðum. Borðplatan er klædd með linoleum-dúk og kantlímd með reyktri eik en borðfóturinn er úr duftlökkuðu stáli.

Gólfsíðar hörgardínurnar sem dempa svo fallega dagsbirtuna sem flæðir inn um gluggana saumaði mamma Hrefnu en efnið fann hún hjá Bólstraranum við Langholtsveg. „Mig var lengi búið að dreyma um að eignast heimili þar sem ég gæti hannað og smíðað allar innréttingar sjálf og sá draumur hefur nú ræst. Að flytja héðan, ef einhvern tíma kemur til þess, verður eflaust erfitt eftir alla vinnuna sem lögð hefur verið í heimilið,“ segir Hrefna að lokum.

Svarti bekkurinn sem stendur upp við stofusófann er úr nýju húsgagnalínunni frá VIGT. Hrefna kolféll fyrir Mobil-vegglampanum eftir að hafa séð hann í tímariti en hann fékk hún hjá Lýsingu & hönnun.
Innréttingar á baði eru úr bæsuðum aski og smíðaðar af Hrefnu á verkstæði Grindarinnar, líkt og aðrar innréttingar á heimilinu. Loftljósið við baðinnréttinguna heitir Gask og er frá Lumex. Úr baðherbergi er hægt að ganga beint út á afgirtan pall með heitum potti.

 

 

Texti / Gerður Harðardóttir
Ljósmyndir / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -