Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Eitís stíll hjá Brynju og Guðjóni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Húsið sem varð algjört ástríðuverkefni.

Brynja Björk Garðarsdóttir markaðsstjóri og Guðjón Jónsson auglýsingaleikstjóri búa í fallegu pallahúsi í Fossvoginum. Þau hafa bæði mikinn áhuga á hönnun og arkitektúr, heillast mjög af fallegum ljósum og safna húsgögnum sem heilla þau á mörkuðum frekar en í verslunum. Það er óhætt að segja að Brynja og Guðjón búi yfir óbilandi framkvæmdagleði því þau hafa í sameiningu gert upp heil fjögur hús fyrir fertugt! Við heimsóttum þessi duglegu og mjög svo hressu hjón í Hjallaland, raðhús sem þau keyptu í lok árs 2014. Stíllinn er svolítið ,,Eitís“, bleikir tónar, króm og pálmatré sem stendur í stofunni.

Ljósin yfir stiganum niður eru hönnun Tom Dixon.

Hvenær fluttuð þið inn og hvers vegna völduð þið þetta hús? „Við höfðum haft augastað á þessu hverfi lengi en ég ólst upp hérna í Kjalarlandinu fyrstu árin þar sem ég bjó hjá ömmu minni og afa sem voru frumbyggjar hér í hverfinu; fyrst í Kvistalandi og svo Kjalarlandi. Við skoðuðum nokkur hús hérna en það var ekki mikið framboð og margir sem keppast um hverja eign. Svo sáum við þetta hús og féllum alveg fyrir skipulaginu og þessum fallega seventís-hilluvegg í stofunni. Við höfum alltaf verið hrifin af pallaraðhúsum og Guðjón ólst upp í einu slíku í Breiðholtinu. Í svona skipulagi geta fjölskyldumeðlimir dundað sér hver í sínu rými en samt í svo mikilli nálægð. Við kolféllum því fyrir þessu húsi og fluttum inn korter fyrir jól árið 2014.“

Hvernig var húsið þegar þið tókuð við því? „Húsið var vel skipulagt en það var dálítið lokað í kjallaranum þar sem við vildum hafa fjölskyldurými. Þar var eldhús og einnig baðherbergi sem voru ekki í okkar stíl  og við ákváðum að fara strax í töluverðar framkvæmdir í kjallaranum. Við ákváðum líka að fara strax í að laga garðinn því okkur langaði  að gera hann þannig að við gætum notið þess að vera úti. Við vorum með heitan pott þar sem við bjuggum síðast og söknuðum þess mjög að hafa ekki pott, það var því með okkar fyrstu verkum að skiptast á að moka risastóra holu úti í garði til að koma fyrir heitum potti.“

Borðstofuborðið er frá Muuto, á gólfinu er yfirborðsefni sem heitir Pandomo og er frá Harðviðarvali. Borðlampinn ofan á skenknum er gamall Bumling-lampi frá Atelje Lyktan og standlamparnir eru Panthella eftir Verner Panton.

„Í svona skipulagi geta fjölskyldumeðlimir dundað sér hver í sínu rými en samt í svo mikilli nálægð. Við kolféllum því fyrir þessu húsi og fluttum inn korter fyrir jól árið 2014.“

Voruð þið strax með ákveðnar hugmyndir varðandi hvernig þið vilduð breyta? „Já, við vorum til að mynda strax ákveðin í að taka parketið á aðalhæðinni af því þar er fallegur viðarpanel í loftinu sem má segja að hafi verið að keppast við eikarparketið. Sömuleiðis höfðum við strax hugmyndir um annað skipulag á báðum baðherbergjunum en aðalbaðherbergið er niðri og svo er gestabaðherbergi á miðhæðinni. Við vorum líka með hugmyndir varðandi eldhúsið, hvernig við vildum breyta því, þannig að við vorum með fullt af hugmyndum strax í upphafi.“

„Við erum virkilega ánægð með baðherbergin, þau tókust vel,“ segja Brynja og Guðjón.

Hver var stærsta áskorunin í framkvæmdunum? Að búa inni á heimilinu meðan á framkvæmdum stóð. Við mælum ekki með því, því það tekur á taugarnar. Við fórum að vísu til London á meðan pandomo-efnið var sett á gólfin hjá okkur en að öðru leyti vorum við bara hérna saman í skítnum, mjög hressandi! Svo voru þessar framkvæmdir í raun erfiðari en aðrar sem við höfum farið út í því okkur þótti oft einstaklega erfitt að velja hvaða efni við vildum. Þetta hús varð algjört ástríðuverkefni hjá okkur og við vorum oft heillengi að ræða einhver algjör smáatriði sem okkur finnst samt skipta svo miklu máli varðandi heildarmyndina.“

Yfir eldhúsborðinu hangir Nova-ljósið eftir Jo Hammerborg.

Er framkvæmdum lokið? „Okkur langar að endurnýja gólfefnin á neðri hæðunum þegar við höfum tíma og ég er strax farin að pæla í öðrum litum á veggina hjá okkur. Ég er nokkuð viss um að við finnum okkur alltaf eitthvað til að dytta að.

„Þetta hús varð algjört ástríðuverkefni hjá okkur og við vorum oft heillengi að ræða einhver algjör smáatriði sem okkur finnst samt skipta svo miklu máli varðandi heildarmyndina.“

- Auglýsing -

Hvað eru þið ánægðust með eftir allar framkvæmdirnar? „Við erum virkilega ánægð með baðherbergin, þau tókust vel. Það var dálítill hausverkur að teikna þau upp þar sem þau eru bæði mjög lítil en á endanum var hver fermetri vel nýttur. Við fengum þá hugmynd að láta sérsmíða speglavegg á öðru þeirra sem stækkar það mikið og er að auki til mikillar prýði.“

Er þetta framtíðarhúsnæði? „Við höfum komið okkur vel fyrir hérna en það er aldrei að vita hvað gerist þegar framkvæmdakláðinn kemur yfir okkur.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -