Föstudagur 29. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Falleg perla í Eyjum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vestmannaeyjar skörtuðu sínu fegursta þegar okkur bar að garði í reisulegt hús snemma dags í septembermánuði. Það leynir sér ekki þegar inn í húsið er komið að þarna býr mikið smekkfólk. Hugguleg litapalletta og vandað efnisval einkenna heimilið sem skreytt er fallegum málverkum og munum sem margir hverjir hafa tilfinningalegt gildi fyrir fjölskylduna.

Berglind Sigmarsdóttir

Frá því að hjónin góðkunnu, Berglind Sigmarsdóttir rithöfundur og Sigurður Gíslason matreiðslumeistari, keyptu húsið fyrir fimm árum hafa þau lagst í ýmiskonar framkvæmdir. Þau hafa meðal annars byggt við húsið til þess að stækka eldhúsið og útkoman er hreint út sagt æðisleg. „Húsið var upphaflega byggt í kringum 1920, síðan var byggt ofan á það árið 1960. Þegar við keyptum húsið árið 2013 var efsta hæðin alveg hrá svo við þurftum að byrja á því að klára hana alla. Eins þurftum við að gera heilmikið á neðstu hæðinni en þar var meira að segja moldargólf í einu herberginu, það hafði aldrei verið steypt,“ segir Berglind brosandi þegar hún rifjar upp framkvæmdirnar sem þau hafa ráðist í undanfarin ár.

Viðbygging og eldhúsinnrétting sem hæfa húsinu
Berglind og Siggi, eins og hann er gjarnan kallaður, eru bæði fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Þau fóru ung að árum á vit ævintýranna en það var ekki fyrr en árið 2013 að þau ákváðu að flytja aftur heim á æskuslóðirnar með börnin sín fjögur. „Mér finnst alveg æðislegt að vera svona nálægt fjölskyldunni, eins er með krakkana, hérna eru þau svo frjáls og geta kíkt yfir til ömmu og afa hvenær sem er,“ segir hún alsæl á heimaslóðum. Hjónin fóru í miklar framkvæmdir síðastliðið sumar þegar þau ákváðu að byggja við húsið til þess að stækka og opna eldhúsið. ,,Okkur fannst mikið atriði að viðbyggingin yrði þannig að það væri eins og hún hefði alltaf verið hluti af húsinu. Við vildum ekki timbur eða eitthvað slíkt heldur er viðbyggingin bara steypt rétt eins og húsið,“ útskýrir Berglind.

Í eldhúsinu eru hvítar flísar lagðar í fiskibeinamynstri upp í loft og borðplata úr carrara-marmara sem fer einstaklega vel með grárri eldhúsinnréttingunni en Berglind segir þau hjónin hafa verið sammála um mikilvægi þess að velja eldhúsinnréttingu sem hæfði húsinu frekar en að finna einhverja nýtískulegri. Þau viti sömuleiðis vel hvað þau vilja enda fer líf þeirra að miklu leyti fram í eldhúsum. ,,Það kom til dæmis ekkert annað til greina en að hafa gas. Okkur finnst lýsingin líka skipta miklu máli og sömuleiðis skipulagið og vinnuaðstaðan.“ Í eldhúsinu, má meðal annars finna krana fyrir ofan eldavélina og uppþvottavél sem þrífur leirtauið á einni mínútu, þetta eru atriði sem mögulega aðeins fólk sem brennur fyrir matargerð og starf sitt hugsar fyrir.

Elda líka heima
Okkur lék forvitni á að vita hvort þetta fallega eldhús væri mikið notað eða hvort maturinn kæmi frekar úr öðrum eldhúsum þeirra hjóna. Berglind og Siggi eiga tvo veitingastaði hérna í bænum, GOTT og Pítsugerðina. Eru þið samt dugleg að elda heima líka? „Já, við erum það. Það er bara hluti af fjölskyldusamfélaginu okkar. Að setjast niður og borða saman eða halda matarboð. Ég er meira í því að baka á meðan Siggi eldar,“ segir Berglind sem vill að allir séu velkomnir inn á heimilið, jafnt vinir þeirra, vinir barnanna, fjölskylda og aðrir.

- Auglýsing -

Bláir tónar og verk sem gefa kraft
Inni í stofunni er sama notalega stemningin og í eldhúsinu. Stofan var nýlega máluð í fölbláum lit en Berglind virðist einstaklega lagin við að skapa hlýlega stemningu þrátt fyrir kalda grunntóna. „Ég elska liti, ég reyni samt að hafa húsgögnin frekar klassísk og skreyta með litum.“ Og það þarf varla að spyrja Berglindi hver hennar uppáhaldslitur sé; „blár, allir bláir tónar,“ segir hún brosandi. Við borðstofuborðið, sem Berglind keypti á markaði í Reykjavík og lét setja á nýtt leður, stendur bókahilla. Þar er bókunum smekklega raðað eftir litum en hver einasta bók í hillunni er matreiðslubók ,,Þetta er svona þegar líf manns snýst um mat,“ segir Berglind sem sjálf hefur gefið út þrjár matreiðslubækur.

Í stofunni er líka að finna fallegan myndavegg en ætli sé saga á bak við allar myndirnar? ,,Já, eiginlega. Prestsfrúin hérna í bænum, Gíslína Dögg, hélt sýningu sem hét Konur í þátíð þar sem hún vildi mála allar þær konur sem ekki hafði verið getið í mannkynssögunni. Það eru til svo margar styttur af karlmönnum en þetta er sagan þeirra, kvennanna. Þar sem ég er jafnréttissinni og femínisti finnst mér myndirnar tvær af konunum gefa mér ákveðinn kraft,“ en á veggnum má eining finna veggspjald eftir listamanninn Odee og fallegt kort, sem yngsti sonur Berglindar gaf henni, í bland við eldri verk.

- Auglýsing -

Texti / Katrín Andrésdóttir
Myndir / Unnur Magna

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -