Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Fyllir Ásmundarsal af líffærum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigga Heimis hönnuður stendur í stórræðum þessa dagana. Auk þess að þeytast milli landa í vinnu sinni með ungum hönnuðum fyrir IKEA og vera einstæð móðir með þrjú börn, sem hún viðurkennir að útheimti gríðarlega skipulagningu, vinnur hún með fleiri fyrirtækjum og er ofan á allt saman að undirbúa sýningu á líffærum úr gleri sem hún mun halda í samstarfi við stærsta glerframleiðanda í heimi.

Hönnuðurinn Sigga Heimis hefur í nógu að snúast þessa dagana. Mynd / Unnur Magna

„Já, ert þetta þú?“ segir Sigga sem er stödd á Íslandi þegar hún svarar í símann klukkan 10.30. „Síminn hefur hringt stanslaust síðan hálffjögur í nótt og ég var bara alls ekki viss um hver gæti nú verið að hringja. Það er eitt af því sem fylgir því að þrjóskast við að búa á Íslandi þótt ég sé að vinna út um allar trissur að fólk áttar sig ekki alltaf á tímamismuninum og hringir á öllum tímum sólarhringsins. En það er allt í góðu, svona er þetta bara.“

Eitt af þeim verkefnum sem Sigga fæst við erlendis er að skipuleggja og vinna með hönnunarskólum og -stofnunum og vinna með ungum hönnuðum fyrir IKEA. Um hvað snýst það?

„Ég þekki þá tilfinningu mjög vel að koma úr námi og þurfa að byrja á algjörum núllpunkti,“ útskýrir hún. „Ég þekki það sjálf að þekkja engan í þessum geira og þurfa sjálf að finna mér atvinnutækifæri og ég fæ alveg jafnmikið út úr því og þau að hjálpa þeim að komast inn í þetta svo að þegar þáverandi yfirmaður minn hjá IKEA spurði hvernig mér litist á að sjá um samstarf fyrirtækisins við hönnunarskóla var ég fljót að segja já. Síðan eru liðin mörg ár og umhverfið hefur breyst mikið. Á þeim tíma var aðallega verið að teikna einhverjar ákveðnar vörur sem IKEA var að bæta við hjá sér en nú höfum við víkkað þetta miklu meira. Nú vinnum við í rauninni bara með nýjar hugmyndir og væntingar nýrra kynslóða til sterkra vörumerkja. Heimurinn er að breytast svo hratt og maður verður að vera miklu meira á tánum. Fyrir tíu til fimmtán árum gat IKEA mælt miklu betur hvað markaðurinn vildi en það er ekki hægt lengur. Unga fólkið í dag hefur allt aðrar væntingar og vill ekkert endilega eiga fullt af hlutum. Það eru mörg stór fyrirtæki að takast á við þetta, hvort sem það eru bílaframleiðendur, byggingafyrirtæki eða húsgagnafyrirtæki. Þannig að nú er ég með það verkefni að skipuleggja og sjá um samvinnu IKEA við hönnunarskóla um allan heim.“

„Mér finnst gaman að geta flakkað á milli verkefna og prófað nýja hluti en ég þarf að hafa í huga að þetta snýst ekki bara um mig heldur börnin mín líka.“

Mikið púsluspil að samræma vinnu og heimili
Eins og gefur að skilja krefst starfið mikilla ferðalaga og verandi einstæð móðir með þrjú börn þar sem eitt er verulega þroskaskert og þarf mikla umönnun, segist Sigga vera orðin algjör sérfræðingur í því að þrýsta ferðunum niður í mjög stutta pakka.

„Ég er mjög skipulögð þegar ég fer út,“ segir hún. „Samkvæmt reglunni er ég alltaf eina viku í mánuði í Svíþjóð og þar legg ég fram mitt plan um hvernig ég ætla að gera þetta. Það er alls ekki nauðsynlegt að hver ferð taki marga daga. Til dæmis er ég að vinna með skóla í Berlín og flýg þá oft fram og til baka samdægurs. Þetta er allt orðið mun einfaldara en það var, en vissulega er þetta mikið púsluspil og ég þarf að láta ýmislegt ganga upp til þess að þetta smelli saman. Það er bara svo ofboðslega spennandi að vinna við það sem manni finnst skemmtilegt að ég finn leiðir til að láta þetta ganga.“

Sigga er búin að setja húsið sitt á sölu og planið var að eiga annað heimili í Svíþjóð með alla fjölskylduna, en hún segir það ekki eins einfalt og það hljómi.
„Ég ætla aðeins að bíða með að flytja,“ segir hún. „Ég veit alveg hvernig það er þegar fólk er að flytja með börn sem þurfa sértæka ummönun á milli landa, maður hleypur ekkert inn í kerfið þar bara si svona. Það eru endalausir biðlistar alls staðar og ég er ekki alveg tilbúin í það. Það hefur alveg gengið hingað til að vera búsett á Íslandi þótt ég sé í þessari vinnu og ég ætla aðeins að sjá til með þetta.“

- Auglýsing -

Önnur ástæða þess að Sigga er ekki tilbúin að fara af landinu í bili er að hún er komin í stefnumótunarvinnu fyrir Rammagerðina, þar sem hún er í bullandi vinnu og segir frábært að vinna með íslenska handverks- og hönnunararfinn okkar. Fleiri verkefni eru í vinnslu, til dæmis stór verkefni fyrir stórt fyrirtæki í Kóreu.
„Ég hef verið svo ofboðslega heppin – og nú lem ég í allan við sem er hér nálægt mér – að ég hef alltaf haft nóg að gera,“ segir hún. „Ég hef aldrei verið spennt fyrir því að stofna stórt og mikið fyrirtæki og vera með stóran vinnustað. Mér finnst gaman að geta flakkað á milli verkefna og prófað nýja hluti en ég þarf að hafa í huga að þetta snýst ekki bara um mig, heldur börnin mín líka.“

Sigga undirbýr nú sýningu í Ásmundarsal með líffærum sem hún hefur hannað.

Vill opna umræðuna um líffæragjafir
Ofan á öll þessi verkefni og stóran heimilisrekstur er Sigga nú að undirbúa sýningu í Ásmundarsal eftir áramótin þar sem hún mun sýna líffæri úr gleri sem hún hefur hannað, í tilefni af breytingunni á lögunum um líffæragjafir. Hvernig kom sú hugmynd upp?

„Það að eiga barn með sérþarfir opnar nýjar víddir fyrir manni og ég hef með árunum velt því sífellt meira fyrir mér hvernig hönnuðir geti axlað samfélagslega ábyrgð. Ég lenti svo fyrir tilviljun í samstarfi við stærsta glerlistasafn í heimi sem er í New York-ríki og var stofnað af stærsta glerfyrirtæki heims í kringum 1950. Þau ákváðu fyrir nokkrum árum að prófa að vinna með hönnuðum. Þau höfðu alltaf unnið með listamönnum en vildu breyta til og buðu mér og fleiri hönnuðum til samstarfs. Þegar ég var komin í þriggja daga vinnustofu hjá þeim þar sem átti að vinna með munnblásið gler stóð ég og klóraði mér í höfðinu og af einhverri ástæðu datt ég niður á þá hugmynd að búa til líffæri úr glerinu. Eftir það lagðist ég í rannsóknir á því hvar við værum eiginlega stödd í sambandi við líffæragjafir. Þá opnaðist fyrir mér alveg nýr og dálítið óhugnanlegur heimur.

- Auglýsing -

Það er mikill skortur á líffærum í heiminum og fátækt fólk hefur gripið til þess ráðs að selja úr sér líffæri til að komast af og það eru ótal siðferðisspurningar í kringum þetta. Ég ákvað þá að búa til þetta verkefni til að vekja athygli á stöðunni og vekja fólk til umhugsunar um líffæragjafir. Ég hef farið með líffæri á nokkrar sýningar en það sem varð kveikjan að þessari sýningu í Ásmundarsal var þegar þau undur og stórmerki gerðust að Alþingi Íslendinga var einróma sammála þegar það samþykkti ný lög um áætlað samþykki til líffæragjafa sem taka gildi núna 1. janúar. Þetta er mikilvæg breyting sem snertir okkur öll og þarna sá ég tækifæri til að setja upp sýningu sem myndi hvetja fólk til að opna umræðuna um líffæragjafir. Fékk afnot af Ásmundarsal allan janúar og febrúar og þar ætlum við að setja upp undraheim líffæra sem fólk getur gengið inn í og upplifað. Ég er sannfærð um að þetta verður stórkostleg upplifun, en ég segi þér nú nánar frá því öllu síðar. En ég vil samt nefna að Gagarín er samstarfsaðili minn á sýningunni og sömuleiðis Kristján Kristjánsson, lýsingarhönnuður og nýrnaþegi. Þetta eru lykilaðilar sem munu gera það að verkum að sýningin verður mögnuð!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -