Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Gamli Vesturbærinn heillar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þau Helga Gvuðrún Friðriksdóttir og Orri Finnbogason taka vel á móti okkur á lifandi heimili sínu í gamla Vesturbænum. Saman reka þau skartgripaverkstæðið og verslunina Orrifinn skartgripir í sjarmerandi húsnæði við Skólavörðustíg 17a.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Tignarlegt 90 ára gamalt húsið stendur við kyrrlátan göngustíg sem þau segja kunnuga kalla Borgarstíginn. Íbúðin er tæplega 150 fm að stærð og búa þau á fyrstu hæð og í kjallara hússins. „Við höfum búið hér í rúm tvö ár og það er mjög friðsæl og barnvæn fjölskyldustemning hérna, en við fluttum nánast úr næsta húsi svo ísskápurinn fór bara yfir á hjólabretti!“ segir Orri og hlær. „Við elskum að vera hérna, staðsetningin er náttúrulega æðisleg og þetta er svo nálægt miðbænum.“
Aðspurð um hvort þau hafi farið í einhverjar endurbætur segjast þau ekki miklu hafa breytt öðru en farið í smávægilegar breytingar á eldhúsinu, pússað og lakkað parketið og málað. „Fyrri eigandi sagði okkur að parketið á gólfinu væri íslenskt og kæmi frá Húsavík. Skemmtilegt er að segja frá því að í einni fjölinni sem liggur við stigann er föst byssukúla eða hagl, en hún hefur líklega verið í trénu sem var notað í gólfið.“

Málverkið við píanóið er eftir Orra sjálfan, en hann málar í frítíma sínum. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

KAÓTÍSKUR OG LITRÍKUR STÍLL
Greinilegt er að heimilisfólk er ekki hrætt við að nota sterka liti og segist Helga hafa rosalega sterkar skoðanir á þeim. „Ég var alveg með á heilanum að vera með eggaldinfjólubláan einhvers staðar, en fjólublái liturinn hefur verið partur af lífi mínu síðan ég var barn og ég tók einhverju ástfóstri við hann. Við höfum ferðast mikið um Suður-Ameríku og urðum mjög heilluð af litanotkuninni þar og hverju þau þora! Í eldhúsinu reyndum við að ná fram Karíbahafsstemningu með þessum bláa lit, sem minnir okkur á þegar flogið er yfir eyju og maður sér grynningar í sjónum. Þessi skandinavíski grái stíll er alls ekki okkar.“
Hvaðan koma hlutirnir ykkar? „Við kaupum rosalega sjaldan húsgögn, en höfum fengið margt gefins frá vinum og fjölskyldu – við erum mjög hrifin af því að nýta. Svo söfnum líka við uppstoppuðum fuglum, en það er áhugamál sem fæstir skilja.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Veggina prýða fjölmörg eftirtektarverð listaverk. „Við erum með töluvert af verkum eftir Gabríelu Friðriks, systur mína, og að auki er Ragna Róberts móðursystir hans Orra en við erum mjög heppin að hafa tvo svona æðislega listamenn í fjölskyldunni,“ segir Helga.
Hvaða listamenn eða hönnuðir eru í uppáhaldi, aðrir en systir og móðursystir? „Við erum mjög hrifin af húsgögnum eftir Daníel Magnússon, en þau eru ótrúlega vel gerð og endast!“ Þau bæta við að uppáhaldslistamaður Helgu sé Frida Khalo og Orra sé austurríski málarinn Egon Schiele. Aðspurð um uppáhaldsverslunina nefna þau The Evolution Store í New York, en þar má kaupa skeljar, steingervinga, uppstoppuð dýr, skinn, beinagrindur og fleira í þeim dúr en Helga segir þau Orra hafa smekk fyrir þjóðlegum munum víðsvegar að úr heiminum.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Við göngum niður litríkan stigann og rekum strax augun í einkar skemmtilegt gólfið. „Þetta eru steinar úr Djúpalónssandi, en fyrri eigendur dúlluðu við þetta ásamt baðherberginu.“ Baðherbergið minnir svolítið á að vera inni í helli, en loft og veggir liggja saman sem heild og hornin eru öll rúnuð, á veggnum við baðið er svo vönduð mósaík af haföldum. Það er allt öðruvísi stemning í þessu baðherbergi.
Okkur lék forvitni á að vita hvernig starfsferill í skartgripasmíði varð fyrir valinu. „Ég starfaði á gullsmíðaverkstæði í New York og lærði demantsísetningar þegar ég var búsettur þar, en ég lauk svo náminu hér heima árið 2000,“ segir Orri. „Systir mín bjó úti og ég ætlaði í heimsókn yfir jólin 1995 og svo bara ílengdist ég, seinna sótti ég um græna kortið og í framhaldi af því var ég í fimm ár úti og er nú bandarískur ríkisborgari.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -