Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Hús við hafið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Innlit í fallegt raðhús með dásamlegu sjávarútsýni á Seltjarnarnesinu. Innanhússhönnuðurinn Sæbjörg Guðjónsdóttir valdi inn húsgögn á heimilið.

Blaðamaður og ljósmyndari heimsóttu fallegt raðhús með dásamlegu sjávarútsýni á Seltjarnarnesinu, en innanhússhönnuðurinn Sæbjörg Guðjónsdóttir eða Sæja eins og hún er alltaf kölluð tók að sér að velja inn húsgögn á heimilið fyrir eigendur sem búa meirihluta ársins utan Reykjavíkur og er húsið hugsað sem afdrep þeirra í borginni.

Sæja rekur hönnunarstofu undir eigin nafni, en hún útskrifaðist frá KLC School of Design / University of Brighton í London árið 2011 og hlaut John Cullen Lighting Design verðlaunin það árið. Frá útskrift hefur Sæja unnið sjálfstætt fyrir bæði heimili og fyrirtæki en einnig starfaði hún á arkitektastofunni the Manser Practice í London og hefur komið að hönnun verslana, veitingastaða, hótela ásamt því að hafa tekið þátt í samkeppnum í samstarfi við hönnuði og arkitekta bæði hér heima og erlendis.

Þegar Sæja byrjaði verkefnið voru eigendurnir búnir að mála og kaupa Eggið og Sjöurnar eftir Arne Jacobsen. Mynd /Heiða Helgadóttir

Við byrjuðum að spyrja Sæju hvernig þetta verkefni kom til? „Eigendurnir höfðu samband við mig eftir að hafa séð annað verkefni eftir mig hjá kunningjafólki sínu. Þau höfðu nýverið fest kaup á húsinu en það var tekið í gegn af fyrri eigendum, þegar ég hófst handa voru þau hinsvegar búin að mála og kaupa Eggið og Sjöurnar eftir Arne Jacobsen – húsið var því nánast tómt fyrir utan veggfestu Montana-skápana sem fylgdu því. Eigendur eiga stórt og mikið málverk eftir listamanninn Silvíu Lovetank og voru litirnir í því verki svolítill útgangspunktur fyrir litavali mínu á húsmunum.“

„Þau höfðu nýverið fest kaup á húsinu en það var tekið í gegn af fyrri eigendum, þegar ég hófst handa voru þau hinsvegar búin að mála og kaupa Eggið og Sjöurnar eftir Arne Jacobsen.“

Hvernig er ferlið þegar þú tekur að þér innanhúss verkefni? „Það fer töluvert eftir stærð verkefnisins og hvort um er að ræða fyrirtæki eða heimili. Ég byrja alltaf á því að skoða aðstæður, kynnast kúnnanum örlítið og fara yfir þeirra sýn og hugmyndir um framhaldið. Mér finnst líka nauðsynlegt að skoða heimili kúnnans og athuga hvað hann á fyrir eins og listavek eða aðra persónulega muni. Næst fer ég í teikninga eða skissuvinnu og legg til fyrstu drög, þegar það er komið á hreint fer ég í val á efni og innanstokksmunum. Í framhaldi þess leita ég tilboða hjá þeim fyrirtækjum og framleiðendum sem ég kem til með að nota í verkefninu og að lokum er lokauppstilling þegar allt er komið í hús svo hægt er að setja punktinn yfir i-ið.“

Mynd / Heiða Helgadóttir

Hvernig verkefni tekurðu helst að þér? „Verkefnin sem ég tek að mér eru mjög fjölbreytt og misumfangsmikil, það er töluvert um heimili og sumarhús sem koma upp á borð til mín og þar fæ ég að velja allt frá litum og efnum yfir í heildarhönnun á innréttingum og húsgögnum. Einnig er alltaf eitthvað um að fyrirtæki, veitingahús og hótel leiti til mín.“

Mynd / Heiða Helgadóttir

Hvernig myndir þú lýsa þínum stíl? „Stíllinn minn er frekar „elegant“ en á sama tíma má sjá vott af karlmennsku. Ég er fyrir frekar hreinar línur og vil að hver hlutur fái að njóta sín í stað þess að ofhlaða, einnig finnst mér skemmtilegt að leika mér með form og andstæður í efnisvali.“

„Þegar heimili er innréttað skiptir mestu máli að gera það persónulegt“

- Auglýsing -

Notarðu mikið sömu litatóna og efni í þinni hönnun? „Ég styð oft við ákveðna grunntóna eins og litina mína í Slippfélaginu, en brýt þá upp með notkun áferða og einhvers meira áberandi litar – eins og í þessu verkefni notaði ég vínrauðan velúr.“

Mynd / Heiða Helgadóttir

Hvað er áberandi í innanhússhönnun um þessar mundir og skiptir mestu máli þegar kemur að því að innrétta heimilið? „Það er meiri litagleði en hefur verið oft áður, þyngri efni og óhefðbundin form. Svo hafa „statement“ ljós líkt og Vertigo ljósið sem ég notaði yfir borðstofuborðið í þessu verkefni einnig verið áberandi. Varðandi það að innrétta heimilið skiptir mestu máli að gera heimilið persónulegt.“

Við kveðjum innanhússhönnuðinn Sæju og glæsilega húsið við hafið og endum á því að spyrja hana hvernig verkefni henni þyki nú skemmtilegust? „Það er auðvitað langskemmtilegast þegar ég fæ svolítið frjálsar hendur og kúnninn þorir með mér á ótroðnar slóðir.“

- Auglýsing -
Mynd / Heiða Helgadóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -