Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
9.9 C
Reykjavik

„Vonlaust ef ég fékk ekki gagnrýni og bara hrós“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Við fengum að gægjast inn í vinnustofu grafíska hönnuðarins og teiknarans Sigríðar Rúnar sem er einna þekktust fyrir verkefnið „Líffærafræði leturs“.

 

Ákvaðst þú á einhverjum tímapunkti að verða listamaður/teiknari eða gerðist það bara „óvart“?

Þegar ég var krakki vildi ég verða bóndi en ég var alltaf teiknandi og þá aðallega dýr náttúrlega. Þegar ég varð eldri og leiddist í skóla hugsaði ég oft hvers vegna ég gæti ekki bara unnið annaðhvort við að teikna eða með dýr. Ég fór fyrst í nám í prentsmíði (grafískri miðlun) og er með sveinsbréf í þeim efnum og fljótlega eftir það fór ég í Listaháskólann í grafíska hönnun.

Í dag get ég unnið við að teikna og hanna en starfa líka með dýrum, þjálfa og tem hesta eins og vitleysingur. Þetta gerðist síður en svo óvart, en ég hef stefnt í þessa átt frá blautu barnsbeini.

Hvenær sólarhringsins finnst þér best að vinna?

Ég vinn yfirleitt á kvöldin við að teikna og hanna, en ef ég kemst í að vinna á morgnana er ég afkastameiri. Ég glími hins vegar við að vera B- manneskja og finnst ekki spennandi að fara snemma á fætur.

- Auglýsing -
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hvernig verk ertu aðallega að gera og fyrir hvað?

Ég er aðallega að teikna og reyni að hafa verkefnin sem fjölbreyttust. Ég frumsýndi verkið mitt Líffærafræði Leturs árið 2012 og er enn að vinna í því á ýmiss konar vettvangi. Ég hef gaman af því að setja upp sýningar og stekk á flestöll tækifæri sem mér gefast í þeim efnum.

Hvaða litir heilla þig?

- Auglýsing -

Ég er hrifnust af andstæðum og nota mikið svartan og hvítan.

Hvaðan færðu innblástur?

Allt getur veitt mér innblástur, allt frá því að fara í reiðtúr að vori til þess að vafra á Netinu og skoða. Ég fer ekki á neina sérstaka staði með það í huga að fá innblástur þá og þegar, það bara gerist og þegar það gerist reyni ég að grípa tækifærið.

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hefur þú alla tíð haft gaman af að teikna/mála?

Já, ég hef alla tíð haft gaman af því að teikna og þá sérstaklega dýr. Það sem situr fast í mér varðandi að teikna sem krakki var að allir hrósuðu myndunum mínum, nema amma. Hún sagði að þær væru fínar og kom svo með gagnrýni. Ég vil meina að það hafi hvatt mig til að teikna meira, frekar en allt hrósið.

Ég fann fyrir því sama þegar ég fór síðan í Listaháskólann og fannst vonlaust ef ég fékk ekki gagnrýni og bara hrós -það þarf jafnvægi þarna á milli.

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?

Það er breytilegt eftir því hvernig mér líður en Björk sem listamaður er alltaf í uppáhaldi.

Hvar fást myndirnar þínar?

Líffærafræði Leturs fæst hjá Geysi Heima, í Hönnunarsafninu og á heimasíðunni minni. Allar aðrar myndir fást í gegnum mig, svo ekki hika við að hafa samband.

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hvað er fram undan á næstu misserum?

Ég held áfram að teikna og hanna. Svo stefni ég enn þá ótrauð að því að verða bóndi með vinnustofu í hlöðunni eða eitthvað álíka rómantískt svo það er nóg að gera.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -