Ríkislögreglustjóri bar ábyrgð á að veita lögreglumanni sem var kærður fyrir barnaníð lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Þetta kemur fram í bréfi Innanríkisráðuneytisins til móður barnsins.
Það er á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í svari þáverandi Innanríkisráðuneytis við bréfi frá Halldóru Baldursdóttur, sem ritstjórn Mannlífs hefur undir höndum og er dagsett 8. júní 2012.
Í bréfinu kvartaði Halldóra undan viðbrögðum yfirstjórnar lögreglu við kæru á hendur lögreglumanni vegna meints hans kynferðisbrots á dóttur hennar, sem var tíu ára þegar hið meinta brot var framið.
Í svari sínu bendir Innanríkisráðuneytið á að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga n.r 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skuli það stjórnvald sem skipar í embætti veita og lausn frá því um stundarsakir. En samkvæmt 5. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skipar ríkislögreglustjóri lögreglumenn til starfa til fimm ára í senn.
Ennfremur kemur fram í svari Innanríkisráðuneytisins að þótt veitingarvaldshafa sé synjað um afhendingu gagna í sakamáli, þá telji ráðuneytið ekki ómögulegt fyrir veitingarvaldshafa að meta hvort forsendur séu til þess að veita embættismönnum lausn um stundarsakir.
En embætti ríkislögreglustjóra taldi sér ómögulegt að veita umræddum lögreglumanni lausn um stundarsakir þar sem embættinu hafði verið synjað um upplýsingar um rannsókn sakamálsins á hendur manninum.
Með hliðsjón af ofangreindum atriðum mat ráðuneytið það sem svo að það væri á ábyrgð ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu.
Hér er bréfið sem ritstjórn Mannlífs hefur undir höndum: