Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Bað börnin að hjálpa sér að deyja

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrsta kvikmynd Maríu Sólrúnar Sigurðardóttur í fjórtán ár, Adam, er fjölskylduverkefni sem fjallar um glímu sonar við spurninguna um hvort hann eigi að hjálpa heilabilaðri móður sinni að deyja, spurningu sem María þekkir úr eigin lífi.

María Sólrún kvikmyndaleikstjóri hefur búið og starfað í Þýskalandi í rúm þrjátíu ár þar sem hennar aðalstarf hefur verið að skrifa handrit að þýskum sjónvarpskvikmyndum og -seríum en hún er líka vel þekkt innan íslenska kvikmyndabransans þar sem hún hefur verið ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöðinni að fjöldamörgum íslenskum myndum, meðal annarra Hrútum og Eiðnum.

María Sólrún Sigurðardóttir er kannski ekki nafn sem almenningur þekkir en hún hefur engu að síður haft meiri áhrif á líf okkar en okkur grunar. María Sólrún hefur búið og starfað í Þýskalandi í rúm þrjátíu ár þar sem hennar aðalstarf hefur verið að skrifa handrit að þýskum sjónvarpskvikmyndum og -seríum, en hún er líka vel þekkt innan íslenska kvikmyndabransans þar sem hún hefur verið ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöðinni í fjöldamörgum íslenskum myndum, meðal annarra Hrútum og Eiðnum. Hún er hins vegar líka kvikmyndaleikstjóri og er nú mætt er til landsins með fyrstu mynd í fullri lengd sem hún hefur leikstýrt í fjórtán ár og þar sem sonur hennar, Magnús, leikur aðalhlutverkið og dóttir hennar og tengdasonur sjá um tónlistina. Myndin, sem heitir Adam, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á árinu þar sem hún fékk mikla athygli og umfjöllun og opnaði nýjar dyr fyrir alla fjölskyldumeðlimi.

Það hefur komið fram að viðfangsefni myndarinnar er glíma sonar við eigin samvisku eftir að móðir hans greinist með heilabilun. Hann hafði nefnilega lofað henni því að hjálpa henni að deyja ef til þess kæmi. Efnið er Maríu Sólrúnu hugleikið og stendur henni nærri, þar sem hennar eigin móðir glímdi við heilabilun í fjórtán ár og Maríu var sagt að það væru fimmtíu prósent líkur á því að hún sjálf ætti eftir að lenda í því sama.

„Við hefðum svo gjarna viljað geta tekið hana út af stofnuninni sem hún bjó á, farið með hana upp á jökul, spilað fyrir hana á gítar og gefið henni kakó. Leyft henni að deyja þar. Það var svo erfitt að horfa upp á þetta.“

Þótt tilefni samtals okkar Maríu Sólrúnar sé að sjálfsögðu Adam og ástæður þess að fjórtán ár liðu á milli mynda hjá henni, byrjum við spjallið á hefðbundinn íslenskan hátt með því að ég spyr Maríu Sólrúnu hvaðan hún sé og hverra manna. Það þykir henni fyndið og gefur þær upplýsingar einar að hún sé fædd í Reykjavík og alin upp í Bústaðahverfinu. Við því er lítið að segja og talið berst snarlega að Berlínardvölinni en þangað fór hún árið 1985 og hóf nám við Freie Universität Berlin.

„Ég fór þar í kvikmyndafræði, listasögu og stjórnmálafræði en svo þegar ég var í miðju magister-verkefni söðlaði ég um og fór í kvikmyndaskólann í Berlín,“ segir María Sólrún.
Spurð hvað hafi valdið því að hún skipti um vettvang segir hún skýringuna á því vera einfalda.
„Ég hafði gert nokkrar stuttmyndir og þegar ég varð einstæð móðir ákvað ég að drífa mig bara í kvikmyndagerðina.“

Hefur horft upp á misrétti í bransanum

Á þeim tíma voru börn Maríu Sólrúnar, Liina og Magnús sem bæði leika í Adam, fimm og þriggja ára en eru í dag 27 og 24 ára. María dregur enga dul á það að staða hennar sem einstæðrar móður hafi haft mest að segja um það að hún valdi handritaskrif og ráðgjöf fram yfir leikstjórnina. „En það er svo merkilegt að það er ekki fyrr en á síðustu árum sem ég hef þorað að segja það. Og ég skal segja þér út af hverju. Þannig var að einhvern tíma kynnti framleiðandi kvikmyndar leikstjóra hennar fyrir mér og útskýrði að ástæðan fyrir því að það hefðu liðið tíu ár á milli kvikmynda frá þeim ágæta manni væri að hann væri einstæður faðir. Og allir í kring sögðu bara „æ, en sætt, oh hvað hann er góður maður.“ Ég notaði það aldrei sem afsökun fyrir neinu að ég væri einstæð móðir, tók aldrei frí út á það að börnin væru veik eða neitt slíkt, þorði ekki einu sinni að minnast á það.“

- Auglýsing -

Þetta leiðir talið að umræðunni um stöðu kvenna í kvikmyndabransanum, hver er reynsla Maríu Sólrúnar af henni?
„Þegar ég var barn var ég handviss um að þetta myndi allt breytast þegar ég væri orðin fullorðin, þá yrði sko komið jafnrétti milli kynjanna,“ segir hún og andvarpar. „Sérstaklega eftir að mæður okkar voru búnar að fara niður á Austurvöll 1975. En ég hef svo sannarlega horft upp á misrétti milli kynjanna í bransanum. Það er ekkert endilega bara körlunum að kenna, kerfið er svo rótgróið. Ég get auðvitað bara talað út frá sjálfri mér: Ég átti börnin mín og hefði ekki viljað missa af því en það fer vissulega mikill tími og kraftur í það, hvað þá að vera einstæð móðir. Og manni fannst maður kannski vera að missa af lestinni þegar strákarnir fóru að taka fram úr manni. Ég var búin að gera eina mynd en svo komu þeir með næstu mynd og næstu og næstu og þá gefst maður pínulítið upp, finnst ekki taka því að keppa við þá. Maður fær líka að heyra það að bransinn segi við einhvern framleiðanda sem ætlar að fara að vinna með þér „Bíddu, hún hefur nú ekkert gert í tíu ár. Getur hún þetta nokkuð lengur?“ Við konur þurfum bara að skapa okkur okkar eigin vettvang og hunsa þetta viðhorf. Þetta var mitt val og ég get alveg komið aftur. Það er heldur ekki eins og ég hafi verið fjarverandi í bransanum þennan tíma, ég var alltaf að skrifa handrit að stórum sjónvarpskvikmyndum. Starf leikstjórans er auðvitað meira dóminerað af karlmönnum en við ættum frekar að ýta á það að kerfið taki okkur inn á okkar forsendum. Kvikmyndasjóður hérna heima hefur til dæmis staðið sig mjög vel í því. Hér hafa konur fengið styrki til að gera sínar fyrstu myndir í fullri lengd eftir fimmtugt, sem er algjörlega frábært.“

María Sólrún segir tiltektir vera í gangi í kvikmyndaiðnaðinum í Þýskalandi, þar sé jafnvel talað um að setja kvóta þannig að sum stóru kvikmyndafyrirtækin séu búin að setja sér það markmið að fimmtíu prósent leikstjóra þeirra séu konur.

Leikstýrði syninum án orða

María Sólrún er sjálf rúmlega fimmtug og Adam er hennar fyrsta mynd í fullri lengd síðan 2004, hvað ýtti henni af stað aftur?
„Að börnin voru farin að heiman,“ segir hún og hlær. „Ég var alveg búin að vera með leikstjórnarverkefni í þessi fjórtán ár sem voru komin vel áleiðis og það var komin milljón evra í eitt þeirra þegar það sprakk. Og ég var kannski búin að fá leiða á því að eltast við það að rúlla upp verkefnum eftir þessu munstri. Að vera með handrit sem við erum að þróa og umskrifa og umskrifa aftur og svo koma einhverjir frá sjónvarpsstöðvunum og verða að fá að segja sitt og svona gengur það fram og til baka. Mig langaði að leyfa sköpunargáfunni að fá meiri útrás og gera þetta öðruvísi fyrst ég var að þessu á annað borð. Gera þetta á mínum eigin forsendum og fjármagna það sjálf. Ég sleppti því til dæmis að skrifa handrit, sem sumum þykir skrýtið þar sem ég hef hingað til aðallega unnið við að skrifa handrit. Ég vildi bara gera þetta skemmtilegt, vera með smávegis tilraunastarfsemi. Við byrjuðum með hugmynd og karakter sem var með stórt vandamál sem okkur fannst snerta okkur. Við fórum pínulítið í þetta eins og heimildarmyndagerðarmenn, fylgdumst með karakternum og því sem hann var að takast á við. Svo klipptum við það efni sem við vorum komin með og langaði þá að gera meira, þannig að þetta varð þriggja ára ferli, þar sem við vorum að taka og klippa, taka meira og klippa það. Svoleiðis vinnubrögð getur maður vanalega ekki fjármagnað og leyft sér.“

- Auglýsing -

Magnús sonur Maríu leikur titilhlutverkið, Adam, hvernig gekk að fara úr hlutverki móðurinnar yfir í hlutverk leikstjórans gagnvart honum?
„Hann er svo prófessjónal, drengurinn, að það var ekkert mál. Kannski líka vegna þess að stuttmyndirnar sem ég gerði í gamla daga voru allar án samtala og í þessari mynd er aðalkarakterinn heyrnarlaus, þannig að það er ekki mikið um samtöl og þá getur maður meira stýrt án orða. Þannig að þetta samstarf gekk bara mjög vel.“

Hefði viljað leyfa móður sinni að deyja

Í kynningum og umfjöllunum um Adam hefur komið fram að umfjöllunarefnið, hvað sé best fyrir móður með heilabilun, stendur Maríu mjög nærri þar sem móðir hennar glímdi við heilabilun í fjórtán ár.
„Já,“ segir hún. „Við systkinin og vinir mömmu stóðum frammi fyrir þessari spurningu þegar verið var að ræða hennar aðstæður; fjórtán ár í hjólastól með bleiu. Fyrst var því haldið fram að við systkinin værum jafnvel með eitthvað svipað, að það væru fimmtíu prósent líkur á því að við yrðum svona. Við hefðum svo gjarnan viljað geta tekið hana út af stofnuninni sem hún bjó á, farið með hana upp á jökul, spilað fyrir hana á gítar og gefið henni kakó. Leyft henni að deyja þar. Það var svo erfitt að horfa upp á þetta. Svo velti maður því auðvitað fyrir sér hvað maður sjálfur myndi vilja ef maður lenti í þessum aðstæðum. Það er svo óhugnanleg tilhugsun að enda svona. Og það versta er að þá er maður ekki lengur með rænu til þess að taka neinar ákvarðanir.“

Það er augljóst að þetta málefni er Maríu Sólrúnu hugleikið, ekki síst sú spurning hvort leggja eigi það á aðstandendur að taka ákvörðun um það hvort líknardráp væri kannski mannúðlegasta lausnin. Hún segist þó ekki geta, eða vilja, taka ákveðna afstöðu í því máli.

„Myndin gengur út á það að móðirin hafði einhvern tíma beðið son sinn að hjálpa sér að deyja ef hún skyldi einhvern tíma lenda í því að fá heilabilun eins og mamma hennar hafði fengið. Ég var reyndar búin að gleyma því, en Magnús minnti mig á það þegar við vorum að vinna myndina að ég hefði gefið börnunum mínum þessi skilaboð; í guðanna bænum ekki láta mig enda eins og ömmu. Þetta er það sem drengurinn Adam stendur frammi fyrir. Honum finnst hann skulda henni það að hjálpa henni að deyja.“
Líknardráp, sem sumir kjósa að kalla dánaraðstoð, eru bönnuð með lögum í Þýskalandi þannig að ef Adam myndi hjálpa móður sinni væri það glæpur, sem gerir baráttu hans við sjálfan sig enn erfiðari. „Skiljanlega,“ segir María Sólrún.
„Eitt er að ætlast til einhvers svona af börnunum sínum,“ segir hún. „Þar fyrir utan er það ólöglegt og jafnvel þótt það væri löglegt þá hefur manneskjan sem bað um aðstoð ekki tekið þá ákvörðun meðvitað að leggja slíka byrði á fólk. Ég sé samt alveg einhverja virðingu í því að fólk fái að deyja þegar það er orðið ósjálfbjarga. En ég á voðalega erfitt með að mynda mér ákveðna skoðun á þessu. Það er svo margt sem mælir bæði með og á móti.“

Tók upp atriði í eigin rúmi

Adam var frumsýnd á Berlínarkvikmyndahátíðinni fyrr á þessu ári og hlaut afar góðar móttökur og umsagnir. María Sólrún viðurkennir að það hafi komið henni á óvart, hafi eiginlega verið súrrealísk reynsla.
„Þetta var mynd sem ég tók heima hjá mér, karakterinn var í rúminu sem ég svaf svo í um nóttina, ég skipti ekki einu sinni um rúmföt. Þetta var allt svo rosalega persónulegt. Samstarfsfólkið var vinir mínir og börnin mín, allt prófessjónal leikarar samt, og öll vinnan var svo náin. Svo erum við allt í einu komin í einhvern þúsund manna sal fullan af fólki þar sem tekið er svona vel á móti á okkur. Myndin er komin upp á risastórt tjald, lítur vel út og greinilega snertir fólk. Fólk grætur allt í kringum mann í salnum. Það var vissulega súrrealískt.“

Velgengni Adams opnaði ýmsar dyr fyrir Maríu Sólrúnu og börn hennar, hún er komin með tvö ný verkefni í vinnslu, kvikmynd sem hún vinnur að með syni sínum og sjónvarpsþætti sem hún er að þróa með Liinu, dóttur sinni.

„Þetta opnaði nýjar brautir fyrir okkur öll,“ segir hún stolt. „Við lítum á okkur sem fjölskyldu-listakollektív. Við Magnús erum að skrifa og þróa annað handrit með stóru fyrirtæki í Þýskalandi þar sem hann mun líka leika aðalhlutverkið. Það kom algjörlega til út af Adam. Hann er líka kominn með umboðsmann í Los Angeles eftir þetta. Við Liina erum svo að þróa sjónvarpsseríu fyrir annað stórt þýskt fyrirtæki og ég „sel“ alltaf tónlistarhugmyndir með í öll þessi verkefni og það eru Liina og Haraldur Þrastarson, kærasti hennar, sem vinna tónlistina. Þannig að vissulega hefur þessi mynd breytt öllu fyrir okkur.“

Konur þurfa að forma bransann upp á nýtt

Sjónvarpsserían umrædda leggur áherslu á kvenlega sýn og kvenlega reynslu, samt alls ekki eitthverja Sex and the City/Girls-hugmynd undirstrikar María. Þetta eru spennuþættir sem beina sjónum að konum og þeirra samskiptum. Við tölum um það í sjónvarpsþáttum samtímans að fjalla um konur og ég spyr, eins og auli, hvort María haldi að það sé komið til að vera, eða hvort konur fái bara sviðsljósið núna af því það er búið að þrýsta svo harkalega á kvikmyndafyrirtækin. Það þykir henni fáránleg spurning.

Velgengni Adams opnaði ýmsar dyr fyrir Maríu Sólrúnu, hún er komin með tvö ný verkefni í vinnslu, kvikmynd sem hún vinnur að með syni sínum og sjónvarpsþætti sem hún er að þróa með Liinu, dóttur sinni.

„Ég held að þetta sé komið til að vera,“ segir hún ákveðin. „Þetta er eins og að spyrja svart fólk hvort þessar myndir með áherslu á reynslu svartra séu ekki bara tískufyrirbæri. Kannski eru orðnir margir þættir um konur núna, en í vinnu minni sem ráðgjafa hjá kvikmyndasjóði hef ég ekki orðið vör við það að konur séu að taka kvikmyndagerðina yfir. Það eru enn fleiri karlar sem sækja um, þannig að í augnablikinu er alla vega engin hætta á að þeim verði bolað út.“

Ég heyri á Maríu Sólrúnu að henni finnst þessi umræða út í hött en ég þrjóskast við og spyr hvort hún sem kona sem gjörþekkir kvikmyndabransann trúi því í alvöru að hlutföll kynjanna jafnist út. Það sljákkar aðeins í henni.

„Sko. Það er alveg öruggt að tilhneigingin er sú að bransinn vill fara að sýna það að hann sinni ákveðnum skyldum. Það er alveg réttlætanlegt að spyrja hversu mikið sé á bak við það. En ef við konur sjálfar erum svolítið duglegar að nota tækifærið í leiðinni til þess að forma bransann pínu hagstæðar fyrir okkur, þannig að þú getir átt fjölskyldu og eignast börn en samt fengið að hafa rödd í þessum bransa, þá helst þetta svona. Ég trúi því. Það þýðir ekki endilega að konur þurfi að fara að gera kvikmyndir svona seint eins og ég, heldur skiptir máli að þú þykir hafa einhverja vikt í greininni þótt þú sért ekki að unga út efni sem leikstjóri eins hratt og einhverjir aðrir. Mér finnst allavega núna vera að koma fram fleiri hugrakkar stelpur með sterka rödd hér á Íslandi. Ég er ekki að meina að þær stelpur sem komu á undan hafi ekki verið hugrakkar með sterka rödd, en þeim hefur fjölgað sem er mjög jákvætt.“

Konur skila sér síður út á markaðinn

María Sólrún segir sömu tiltektirnar vera í gangi í kvikmyndaiðnaðinum í Þýskalandi, þar sé jafnvel talað um að setja kvóta þannig að sum stóru kvikmyndafyrirtækin séu búin að setja sér það markmið að fimmtíu prósent leikstjóra þeirra séu konur. Og áhrifin sjáist víðar.

„Kvikmyndahátíðin í Berlín tók þetta mjög alvarlega í ár, buðu miklu fleiri kvikmyndum gerðum af konum en áður hefur tíðkast. Þannig að umræðan hefur alveg áhrif. Það hefur lengi verið þannig í kvikmyndaskólum í Þýskalandi að konur eru næstum helmingur nemenda en það hefur ekki skilað sér út á markaðinn. Það er þess vegna sem ég tala svona mikið um að við þurfum að leyfa okkur að gera þetta á eigin forsendum og vera ekki hræddar um að missa af lestinni ef við eignumst börn og fjölskyldu og það dregur úr afköstunum í einhvern tíma. Það er aldrei of seint að snúa aftur.“

„Mér finnst alla vega núna vera að koma fram fleiri hugrakkar stelpur með sterka rödd hér á Íslandi. Ég er ekki að meina að þær stelpur sem komu á undan hafi ekki verið hugrakkar með sterka rödd, en þeim hefur fjölgað, sem er mjög jákvætt.“

Talandi um endurkomu þá verður Adam frumsýnd á Íslandi sem lokamynd barnakvikmyndahátíðar í Bíó Paradís þann 14. apríl og fer síðan í almennar sýningar þann 16. Auk þess munu María Sólrún og Magnús verða með Master Class í Bíó Paradís 16. og 17. apríl. Hvernig er það hugsað?

„Við verðum með smáspjall eftir sýningu myndarinnar um það hvaða trix er hægt að nota ef maður ætlar að búa til heimakvikmynd sem getur lent á stórri kvikmyndahátíð,“ segir María Sólrún og skellir upp úr. „Við kunnum það.“

Dýrtíðin á Íslandi hrikaleg

Í tilefni af íslensku frumsýningunni er María stödd á landinu en hér hefur hún ekki búið síðan 1985. Dreymir hana, eins og marga brottflutta Íslendinga, um að flytja heim í ellinni og njóta íslenskrar náttúru?

„Nei, ég kem hingað reglulega og nýt náttúrunnar en mér finnst dýrtíðin hér bara svo hrikaleg að ég gæti ekki búið hérna,“ segir hún og það er sjokk í röddinni. „Ég fer bara aftur heim til Berlínar og þar munum við Magnús halda áfram að vinna í handritinu að nýju kvikmyndinni og við Liina að þróa sjónvarpsþáttaröðina. Við fengum líka styrk fyrir enn eitt handritið, svo það er nóg að gera. Ég er rétt að byrja!“

Samtalið fer að styttast í annan endann en að lokum spyr ég Maríu Sólrúnu hvort hún vilji koma einhverju á framfæri við íslenskar kvikmyndagerðarkonur áður en við hættum.

„Ég vil bara endilega nota tækifærið og hvetja konurnar í bransanum til dáða. Ekki bara þessar ungu, sem maður þarf líka að hvetja, heldur bara allar konur á öllum aldri, til að láta til sín taka í kvikmyndaiðnaðinum. Koma sínum sjónarmiðum á framfæri hvað sem það kostar. Jafnvel bara gera þetta innan fjölskyldunnar, eins og við. Það var einmitt einhver kona sem benti mér á að ég hefði unnið þessa mynd eins og bóndi sem þarf að leita allra leiða til að koma uppskerunni í hús, tók bara börnin með út á akurinn þegar á þurfti að halda.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, National make up artist fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -