Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-6.2 C
Reykjavik

„Fallegt þegar fagfólk þarf að upplifa að vera amatörar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Björk hvetjandi og sýnir algjört traust.

Sviðshreyfingar í komandi tónleikaferð Bjarkar Guðmundsdóttur eru í höndum Margrétar Bjarnadóttur, danshöfundar og myndlistamanns. Þær kynntust fyrir 15 árum þegar Margrét var barnfóstra Bjarkar.

Margrét Bjarnadóttir segir að lög Bjarkar séu aðaláttavitinn í sköpun sviðshreyfinganna.

Í lok maí mun Björk hefja tónleikaferð sína um heiminn og hélt nokkurs konar generalprufu af tónleikunum í Háskólabíói fyrir skömmu. Tónleikarnir eru liður í útgáfu Útópíu sem er tíunda sólóplata Bjarkar en hún kom út í lok síðasta árs. Hún kemur fram með sjö flautuleikurum, hörpuleikara, slagverksleikara og raftónlistarmanni. Hópurinn hefur verið við æfingar á Íslandi síðastliðnar vikur. Leikmynd tónleikaferðarinnar var frumsýnd í Háskólabíói en hún er hönnuð af Heimi Sverrissyni og smíðuð í Irma studios. Við spurðum Margréti út í verkið og samstarfið við Björk.

„Við höfum þekkst í mörg ár þar sem ég var barnfóstra dóttur hennar í eitt ár fyrir 15 árum. Það var sko yndislegt samstarf. Svo, fyrr í vetur, bað hún mig um að semja hreyfingar fyrir tónlistarmyndbandið við lagið Útópía þar sem flautuleikararnir voru í stóru hlutverki. Það var mjög skemmtilegt og var eins og byrjunin á einhverju sem væri hægt að þróa áfram. Upp úr því spurði hún hvort ég hefði áhuga á að sjá um hreyfingar flautuleikaranna fyrir tónleikaferðalagið,“ segir Margrét.

„Svo þurfti ég líka að huga að heildarmyndinni, að kaffæra ekki tónleikana í danssporum heldur finna jafnvægi.“

Við vinnsluna á verkinu vildi Margrét finna leið til þess að hreyfingar flautuleikaranna gætu orðið eðlilegur hluti af flutningi þeirra eða framlenging á honum. „Flautuleikararnir, allt konur, eru rosalega færar og ég vildi ekki að hreyfingarnar ynnu á móti tónlistarflutningnum. Það gerði það vissulega fyrst þegar þær voru að læra hreyfingarnar og ná tökum á þeim en svo kom þetta smám saman. Kannski hefði ég ekki haft svona mikla trú á því ef ég hefði ekki verið búin að gera No Tomorrow á síðasta ári, gítarballett okkar Ragnars Kjartanssonar með Íslenska dansflokknum, þar sem dansararnir lærðu að spila á gítar og dansa um leið. Mér finnst svo fallegt tímabil í æfingaferlinu þegar þessar miklu fagmanneskjur þurfa að sætta sig við að verða amatörar í smátíma á meðan þær eru að tileinka sér eitthvað alveg nýtt. Þær eru að gera svo margt sem þær hafa aldrei gert áður og kannski eitthvað sem fáir ef einhverjir flautuleikarar hafa gert – að læra öll þessi lög utanbókar sem sum hver eru í flóknum útsetningum og dansa samhæfðar hreyfingar um leið. Þetta er mjög mikil áskorun. En svo þurfti ég líka að huga að heildarmyndinni, að kaffæra ekki tónleikana í danssporum heldur finna jafnvægi. Sum lög vildu bara kyrrð og þá hlustaði ég á það. Svo eru margir þættir sem spila inn í og hafa áhrif á það sem maður getur gert, eins og til dæmis leikmyndin og skiptingar á flautum á milli laga, sem eru mjög tíðar, þannig að það er að mörgu að huga. En svo er þetta líka eitthvað sem verður áfram í þróun. Það var svo gott að fá tækifæri til þess að vera með æfingatónleika í Háskólabíói og nú höfum við tíma til að breyta og bæta og nostra við smáatriði fyrir tónleikaferðalagið sem hefst í London.“

Frábært að vinna með Björk
Björk skapar sína heima á einstakan hátt en Margrét heldur að hún hafi aldrei áður skapað jafnsjónrænan heim fyrir tónleikaferðalag, sérstaklega á svona tónlistarhátíðum utandyra eins og fram undan eru í sumar. „Það þarf að vera hægt að skella leikmyndinni sem Heimir Sverrisson hannaði upp á hálftíma og skyndilega ertu komin með eitt stykki útópískan heim. Það er svo mikil alúð í öllu, alveg út í minnstu smáatriði, eins og til dæmis grímurnar sem James Merry hannar og býr til fyrir Björk, flautuleikara og hörpuleikara. Hver gríma er einstök og skreytt með pínulitlum perlum sem sjást kannski ekki úr kílómetra fjarlægð á útifestivali en skipta samt mjög miklu máli fyrir stemninguna í heiminum sem hefur verið skapaður.“

Mikið var um dýrðir þegar Björk frumflutti tónleikana í Háskólabíói á dögunum. Mynd / Santiago Felipe

Margrét mun vera með á æfingum í London áður en tónleikaferðalagið hefst og ætlar svo að minnsta kosti að kíkja á hópinn í Róm og sjá hvernig hlutirnir standa. Hún segir að samstarfið við Björk hafi verið frábært. „Hún er hvetjandi og sýnir manni mikið traust en þannig upplifir maður algjört frelsi til að prófa sig áfram. Við ræddum nálgunina en svo var hún aðallega bara mjög hvetjandi. Það hjálpar líka að hafa þekkst í mörg ár og það er svona gagnkvæmur skilningur sem gerir allt auðveldara.

„Það þýðir ekki að gera þær lafmóðar í einhverjum dansi þannig að þær geti ekki blásið í hljóðfærið.“

- Auglýsing -

Lögin eru náttúrlega aðaláttavitinn minn í þessari vinnu. Það er alltaf svo skýr tilfinning í lögunum hennar og þegar ég tengi inn á tilfinninguna í viðkomandi lagi koma hreyfingarnar frekar ósjálfrátt og óþvingað. En hreyfingarnar sem komu hjá mér hentuðu svo ekki alltaf flautuleiknum og þá þurfti ég að aðlaga þær að honum og flautuleikurunum. Ég skil þetta hljóðfæri mun betur núna og það er áhugavert að semja hreyfingar fyrir blásturshljóðfæraleikara þar sem öndunin skiptir miklu máli. Það þýðir ekki að gera þær lafmóðar í einhverjum dansi þannig að þær geti ekki blásið í hljóðfærið þó að þær fari nú reyndar alveg fram á ystu nöf í sumum lögum. En mér finnst mjög gaman að vinna með takmarkanir, þær fara alltaf með mann á einhverjar ófyrirséðar brautir.“

Myndlist og skrif
Margrét kláraði danshöfundanám í listháskóla í Hollandi árið 2006 og hefur unnið sjálfstætt síðan þá. Svo fór hún að vinna meira að myndlist og starfar nú jöfnum höndum sem danshöfundur og myndlistarmaður. „En skrif hafa líka fylgt mér lengi og textar alltaf spilað stórt hlutverk í bæði sviðs- og myndlistarverkunum mínum. Ég hef verið í mastersnámi í ritlist við Háskóla Íslands og næst á dagskrá er einmitt að klára MA-lokaverkefnið mitt þar. Það hefur verið að safnast saman í langan tíma og ég hlakka til að veita því athygli núna.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson og Santiago Felipe

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -