Sunnudagur 22. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Gerendur hafa tvíeflst við #metoo

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir alla umræðuna í kjölfar #metoo-byltingarinnar á síðasta ári kemur mál Áslaugar Thelmu Einarsdóttur gegn ON eins og kjaftshögg. Hefur þá ekkert breyst? Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, og Margrét Erla Maack skemmtikraftur segja málið dæmigert. Þess séu jafnvel dæmi að karlar hafi tvíeflst í áreitninni eftir #metoo-byltinguna.

„Nei, því miður, það kemur ekkert á óvart í þessu máli,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, spurð hvort eitthvað hafi komið henni á óvart í máli Áslaugar Thelmu Einarsdóttur gegn ON. „Mín reynsla af þessum málum, í gegnum einstaklinga sem hafa leitað til okkar hjá BSRB, er að mjög algengt er að ekki sé brugðist við kvörtunum um kynferðislega áreitni innan vinnustaða, eða að það sé brugðist við með röngum hætti. Rannsóknir sýna að það eru margir sem ákveða að stíga ekki fram vegna þess að þeir hafa ekki trú á því að það verði brugðist við með viðeigandi hætti.“
Spurð hversu algengt þetta vandamál sé, hvernig mál BSRB fái til dæmis til umfjöllunar, segir Sonja að þau séu ekkert mjög mörg, hvorki hjá BSRB né öðrum samtökum á vinnumarkaði, og ástæðan sé meðal annars sú að fólk hafi ekki vitneskju um hvert það geti leitað eftir aðstoð.
„Þannig að áhersla #metoo-samstarfsnefndar 16 samtaka og stofnana, sem stofnuð var af BSRB, ASÍ, Kvenréttindafélagi Íslands og FKA, er meðal annars á að gera upplýsingar aðgengilegrium hvert sé hægt að sækja sér aðstoð og stuðning. Til dæmis með opnun vefsíðu þar sem allar upplýsingar um ferlið koma fram.“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, segir mjög algengt að ekki sé brugðist við kvörtunum um kynferðislega áreitni innan vinnustaða, eða að það sé brugðist við með röngum hætti..

Fjórir gerendur, engin viðbrögð
Beðin um að nefna dæmi um mál sem hafa komið á hennar borð er Sonja skjót til svars. „Það leitaði til mín kona sem hafði birt frásögn sína hjá #metoo-yfirlýsingu kvenna í tækni-, upplýsinga- og hugbúnaðariðnaði síðastliðinn vetur, þar sem hún lýsti kynferðislegri áreitni sem hún hafði orðið fyrir á vinnustað sínum. Það sem var óvanalegt við þetta mál var að gerendurnir voru samtals fjórir og yfirmaðurinn brást ekki við kvörtunum hennar. Eftir að hún birti sögu sína fór ferli í gang á vinnustaðnum þar sem átti að bregðast við, að því er hún hélt. Það var sett af stað fræðsla um kynferðislega áreitni og hún fékk þær upplýsingar að viðkomandi gerendur hefðu verið áminntir, en vinnuaðstæður hennar breyttust samt ekki neitt. Það var ekki gripið til neinna aðgerða til þess að auðvelda henni að koma til baka. Eftir að hún leitaði til okkar tók við margra mánaða tímabil þar sem við reyndum að ná fram einhverjum breytingum hjá fyrirtækinu, en ekkert gerðist. Í kjölfarið samdi fyrirtækið við hana um starfslok, sem er því miður meginlína í svona málum. Svona mál enda oftar en ekki með því að þolandinn hættir á vinnustaðnum. Eins og kom mjög skýrt fram í #metoo-frásögnunum eru staðhæfingar um að meintir gerendur séu svo ómissandi á vinnustaðnum að það sé ekki hægt að láta þá fara, mjög algeng viðbrögð við kvörtunum um kynferðislega áreitni.“
Sonja segir þetta eitt af verstu málum sem hún hafi fengið til umfjöllunar, einkum vegna fjölda gerendanna, en það séu vissulega alls konar mál sem komi fram. „Allt frá nauðgun á vinnustaðstengdum viðburði yfir í kynbundnu áreitnina sem er þá meira svona karlremba þar sem karlmenn viðhalda valdastöðu sinni á vinnustaðnum með því að grafa undan konunum.“

Dæmi um að karlar hafi tvíeflst eftir #metoo
Hefur ástandið þá ekkert lagast eftir #metoo-umræðuna? „Það voru vissulega okkar væntingar,“ segir Sonja. „En ég upplifi það ekki af þeim málum sem hafa verið að koma til umfjöllunar undanfarið. Upplifunin er sú að stjórnendur vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við, þekkja ekki reglurnar nægilega vel og svo er þetta að vissu leyti þverfaglegt ferli. Það þarf líka að skilja sálfræðilegu og andlegu afleiðingarnar á þolandann til að réttum aðferðum sé beitt. Það kemur til dæmis fram í reglugerðum sem eiga að gilda um þetta að alltaf eigi að ræða við einn aðila í einu, en það eru fjölmörg dæmi um það að atvinnurekendur taki það feilspor að kalla bæði þolandann og gerandann saman á fund og ætla að fara að ræða málið. Það virkar eðlilega ekki.“

Sumir hafa haft á orði að ástandið hafi að mörgu leyti versnað eftir #metoo-byltinguna. Nú fóðri menn áreitnina með því að það sé fyndið að áreita „kellingarnar“ fyrir þetta „#metoo-kjaftæði“. Sonja segir að dæmi séu um það.„Það er auðvitað mjög mismunandi menning á vinnustöðum,“ segir hún. „En eins og í dæmi Orkuveitunnar þá erum við að tala um fyrirtæki sem hefur lagt mikla vinnu í jafnréttismálin og er jafnvel fyrirmynd annarra fyrirtækja í þeim efnum, en það skilar sér greinilega ekki. Á öðrum vinnustöðum eru dæmi um að karlarnir sem þar vinna hefi tvíeflst og nýtt #metoo-umræðuna til þess að gera meira grín og meira lítið úr konunum með niðrandi athugasemdum og hegðun til þess að ná aftur sinni valdastöðu og tryggja hana.“

Beðin um dæmi um slíkan vinnustað segir Sonja að þau séu fjölmörg, en hún muni sérstaklega eftir einu tilviki. „Það sem við þurfum virkilega að taka inn í þessa vitundarvakningu er staða kvenna af erlendum uppruna,“ segir hún. „Eitt dæmi um vinnustað þar sem menn hafa tvíeflst er staður þar sem kynjahlutföllin eru nokkuð jöfn en flestar konurnar eru af erlendum uppruna. Þar varð áreitnin meiri eftir #metoo-byltinguna og allt gert til að grafa undan konunum og brjóta þær markvisst niður.“

Margrét Erla og Sonja Ýr hafa báðar lent í kynferðislegri áreitni á vinnustað.

Helmingur fyrirtækja hefur ekki jafnlaunastefnu
Hvað telur Sonja að sé hægt að gera til að raunveruleg breyting eigi sér stað?

- Auglýsing -

„Þessar reglur sem ég var að vísa í áðan segja að atvinnurekendur eigi annars vegar að gera áhættumat, meta hættuna á því að fólk verði fyrir kynferðislegu ofbeldi í vinnunni, og gera í framhaldi af því áætlun um forvarnir og viðbrögð. Í rannsókn sem var gerð í vor á hundrað stærstu vinnustöðum landsins til að kanna hvort #metoo-umræðan hefði haft áhrif á vinnustaðamenningu þeirra, sýndu niðurstöðurnar að rúmlega fjórðungur af þessum stærstu vinnustöðum höfðu ekki framkvæmt áhættumat og tólf prósent höfðu ekki unnið áætlun um forvarnir eins og þeim er skylt að gera. Helmingur fyrirtækjanna hafði enga jafnlaunastefnu og tólf prósent ekki jafnréttisstefnu, sem lög segja fyrir um að verði að vera á öllum vinnustöðum þar sem starfa 25 manns eða fleiri. Það eru sem sagt alls ekki allir vinnustaðir sem hafa tekið umræðuna til sín. Fyrsta skrefið er auðvitað að taka umræðuna um hvernig hegðun fólk vill hafa á vinnustaðnum og hvað er ásættanlegt og hvað ekki. Það þarf að senda skýr skilaboð um að þetta verði ekki liðið og um leið skilaboð um hvert fólk getur leitað. Það þarf að búa til þannig andrúmsloft á vinnustaðnum að fólk treysti sér til þess að stíga fram. Þegar koma upp svona mál eins og hjá Orkuveitunni og starfsfólkið upplifir það að þolandinn er látinn fara þýðir það auðvitað að fólk óttast að segja frá, fólk vill passa upp á sitt eigið starf. Þannig að þessi viðbrögð eru í raun þöggunartækni.“

Ég spyr Sonju hvort hún hafi sjálf lent í áreitni á vinnustað og viðbrögðin eru dæmigerð. „Nei,“ segir hún strax en bætir svo við eftir stutta umhugsun. „Jú, jú, ég hef lent í kynferðislegri áreitni á vinnustað, bullið í mér. Það hafa allir lent í þessu en fólk grefur það bara og heldur áfram í staðinn fyrir að það sé nokkuð gert í því. Á einum vinnustaðnum sagði ég upp út af þessu, enda hafði ég ekki hugmynd um að það væri hægt að komast að einhverri annarri niðurstöðu í svona málum.“

Spurð hvort hún hafi það á tilfinningunni að afgreiðsla þessara mála sé eitthvað að þokast í rétta átt dregur Sonja við sig svarið.
„Það er meira mín tilfinning að núna sé samstaðan meiri og fólk upplifi að það er ekki eitt í þessu. Krafturinn í þessari byltingu hjálpar fólki að hætta að gera lítið úr þeim atvikum sem það lendir í. Og það sem ég er líka að vona, og hef fundið fyrir, er að fólk hjálpast meira að. Samkenndin í þessum málum hefur aukist og það er stuðningur inni á vinnustaðnum fyrir þá sem hafa lent í einhverju og fólk er duglegra við að benda strax á ef eitthvað fer úrskeiðis þótt það verði ekki fyrir áreitninni sjálft. Og það á við bæði um karla og konur. Þannig að já, þetta er eitthvað að þokast. En það er mjög langt í land ennþá og við megum ekki slaka á í vinnunni gegn því að þetta þrífist áfram.“

- Auglýsing -
Margrét Erla Maack hefur starfað sem plötusnúður og skemmtikraftur árum saman og hefur ekki farið varhluta af þeirri kynferðislegu áreitni sem viðgengst í þeim bransa.

„Var hótað að ég fengi aldrei aftur að vinna fyrir Icelandair“
Margrét Erla Maack, er sama sinnis og Sonja, hún segir að málið komið ofboðslega lítið á óvart, þegar hún er spurð um álit á viðbrögðum ON við kvörtunum Áslaugar Thelmu Einarsdóttur um kynferðislega áreitni framkvæmdastjórans Bjarna Más Júlíussonar. „Það er hún sem er vandamálið. Hún á að halda kjafti. Það er ekkert nýtt í þessu,“ segir hún.Margrét Erla viðurkennir þó að hafa orðið fyrir vonbrigðum með hvernig þetta mál var höndlað.

„Maður heldur alltaf að þetta sé búið,“ andvarpar hún. „Sérstaklega í ljósi þeirra byltinga sem hafa orðið undanfarin ár. Maður heldur alltaf þegar svona fréttir koma upp að þetta hljóti að vera síðasta konan sem lendir í þessu.“

Margrét Erla hefur starfað sem plötusnúður og skemmtikraftur árum saman og hefur ekki farið varhluta af þeirri kynferðislegu áreitni sem viðgengst í þeim bransa. „Það sem ég hef upplifað í mínu starfi sem skemmtikraftur og plötusnúður hefur kennt mér að vera næm fyrir því á hvaða vinnustöðum kúltúrinn er eitraður. Fyrir sirka tólf árum síðan, í einu af mínum fyrstu giggum sem var á árshátíð hjá Icelandair, skrifaði ég um upplifun mína á bloggið mitt og benti á að þótt það hefði verið gaman væri samt leiðinlegt að það skuli alltaf vera einn dónakall sem skemmir fyrir öllum hinum. Ég fékk strax viðbrögð frá fyrirtækinu sem fór fram á að ég tæki bloggfærsluna út og hótaði að borga mér ekki fyrir giggið. Engin afsökunarbeiðni eða neitt.“

Á þessum tíma var Margrét Erla ný í bransanum, 22ja ára gömul, og segist auðvitað hafa orðið við þessum tilmælum og tekið bloggfærsluna út.

„Mig vantaði þennan pening svo ég bakkaði, baðst afsökunar og eyddi færslunni. Þá var maður svo blautur á bak við eyrun að maður trúði því að maður væri eina týpan sem lenti í svona. Löngu seinna frétti ég svo að þessi maður væri alræmdur og hefði skemmt partí hjá fyrirtækinu í mörg ár og fólk hefði meira að segja hætt hjá fyrirtækinu út af honum af því enginn hefði gert neitt með kvartanirnar. Ég kvartaði og mér var þá hótað að ég fengi aldrei aftur að vinna fyrir Icelandair og það hefur staðist.“

#metoo bara enn ein ástæðan til að vera með kynferðislega áreitni
Margrét Erla segir þessa reynslu fyrir tólf árum langt frá því einsdæmi, það sé nánast undantekningalaust einhver dónakall á þeim skemmtunum þar sem hún kemur fram sem líti á það sem sjálfsagt mál að áreita hana kynferðislega. „Síðasta stóra uppákoman sem ég lenti í var á árshátíð hjá stóru opinberu fyrirtæki í orkugeiranum þar sem einn maður lét mig bara ekki vera. Ég benti honum á að ég væri að vinna vinnuna mína og hann ætti að láta mig í friði en það þýddi ekkert. Hann spurði hvort hann mætti klípa mig í rassinn og lét sér ekki segjast þótt ég neitaði. Þannig að ég talaði við skemmtinefndina og vinkonu mína sem er háttsett innan fyrirtækisins sem talaði við manninn og hann kom voða lúpulegur og baðst afsökunar, en hélt því fram að þetta væri ekkert alvarlegt af því að hann hefði spurt um leyfi og að honum hefði bara fundist þetta fyndið út af „þessu #metoo“. Þá gekk hann alveg fram af mér. Honum, og mörgum fleirum, finnst sem sagt #metoo bara enn ein ástæðan til að vera með kynferðislega áreitni og kalla það brandara.“

Strax daginn eftir hafði Margrét Erla samband við mannauðsstjóra fyrirtækisins og fékk standard svar um að þetta færi í ferli og síðan yrði heyrt í henni frekar. Síðan gerðist ekkert fleira og mánuði síðar skrifaði hún pistil um uppákomuna í Kjarnann og þá loks fékk hún viðbrögð frá fyrirtækinu. Var kölluð í viðtal og fór síðan í gegnum stefnumótun með forsvarsmönnum fyrirtækisins um að setja skýrar reglur um svona framkomu. „Það sem fólk kannski gerir sér ekki grein fyrir er að þótt áreitnin fari ekki fram á vinnustað á vinnutíma þá gilda sömu reglur um framkomu við samstarfsfólk á samkomum á vegum fyrirtækisins eins og innan veggja vinnustaðarins.“

Margrét segir fyrirtækið sem um ræðir að mörgu leyti sambærilegt við OR og að þar hafi ráðið ríkjum jakkafataklæddir menn alveg fram á síðustu ár, það sé tiltölulega nýskeð að konur komist til áhrifa innan þessara fyrirtækja og karlarnir reyni með öllum ráðum að verja sitt yfirráðasvæði.

„Þetta eru litlir kallar sem er ógnað og eru að reyna að púffa sig upp og sýna hvers þeir eru megnugir,“ segir hún. „Í starfi mínu sem plötusnúður finn ég vel fyrir þessari áráttu karlmanna sem hafa verið einráðir á sínu sviði allt of lengi til að gera lítið úr konum sem koma inn á sviðið. Þeir byrja alltaf á að benda á að það séu nú ekki margar konur í þessari stöðu og halda svo áfram að reyna að draga mann niður svo þeim líði betur.“

Margrét Erla Maack og Sonja Ýr Þorbergsdóttir segja að í kjölfar #metoo hafi ástandið sums staðar versnað og áreitnin aukist. Sonja telur þó að málin séu eitthvað að þokast í rétta átt. „En það er mjög langt í land ennþá og við megum ekki slaka á í vinnunni gegn því að þetta þrífist áfram.“

„Æ, já, hann er alltaf svona“
Það sem Margréti Erlu finnst einna ógnvænlegast er að það virðist sem allir viti af þessari framkomu ákveðinna manna, en það sé bara horft fram hjá því.

„Í hvert einasta skipti sem ég hef kvartað hef ég fengið svarið: „Æ, já, hann er alltaf svona.“ Samt er þessari týpu alltaf boðið í öll samkvæmi á vegum fyrirtækisins. Ég hef meira að segja verið í veislu hjá háttsettu fólki í þjóðfélaginu, þar sem maður var látinn skrifa undir trúnaðarsamning um að segja ekki frá, þar sem eiginmaður einnar konunnar sem vann þarna var þekktur fyrir að vera ógeðslegur og það voru vaktir hjá konunum í veislunni við að passa hver aðra fyrir honum. Þannig að í staðinn fyrir að bjóða honum ekki voru allir á fullu að kóa með þessari framkomu. Það var svakaleg upplifun.“

Margrét Erla segir þessa þöggun og meðvirkni vera stærsta hjallann sem þurfi að yfirstíga til að einhver breyting verði á meðhöndlun slíkra mála.

„Það þarf að vera skýrt verklag innan fyrirtækja um það hvernig eigi að taka á slíkum brotum,“ segir hún. „Það er allt of algengt að konur þori ekki að kvarta yfir áreitninni af ótta við að missa vinnuna og vera álitnar „sú týpa“. Það þýðir ekkert að skrifa í jafnréttisáætlun að kynferðisleg áreitni sé ekki liðin ef það fylgir engin útlistun á því hvernig eigi að bregðast við þegar hún kemur upp. Hvað þýðir það að einhver framkoma sé ekki liðin? Á bara að skamma fólk og láta svo eins og ekkert hafi gerst? Það verða að vera skýrt markaðar afleiðingar af svona brotum. Pabbi minn hefur unnið mikið við meðferð fíknisjúklinga og hann hefur bent mér á að það sem margir karlmenn byggi sjálfsvirðingu sína á sé vinnan. Þótt konan fari frá þeim og börnin hætti að tala við þá gera þeir ekkert í sínum málum, en ef þeir missa vinnuna fara þeir að taka á vandanum. Þannig að ég held að eina leiðin til þess að menn fari að taka þetta alvarlega sé að það sé í alvörunni ekki liðið á vinnustaðnum.“

Spurð hvort henni finnist ástandið ekkert hafa skánað við #metoo-byltinguna segir Margrét Erla að það séu tvær hliðar á því máli. „#metoo hefur auðvitað gefið fólki rödd,“ segir hún hugsi. „Núna er fólk tilbúið að tala um þetta vandamál. En mér finnst viðhorfið dálítið vera það að fólki sé hrósað fyrir að stíga fram og segja frá, en svo sé ekki farið neitt lengra með málið. Það sé litið svo á að með því að hvetja fólk til að tala sé málinu lokið.“

Skikka þarf gerendur í sálfræðitíma
Í máli Áslaugar Thelmu gagnvart OR hefur þó komist hreyfing á málin og hver framkvæmdastjórinn af öðrum fallið. Hjálpar það ekkert?

„Mig langar að trúa því,“ segir Margrét Erla og andvarpar. „En það ömurlega er að þegar svona gerist þá fer allt ferlið að verða loðnara. Það fara að koma fram meiri hótanir þannig að málin verða umdeildari, sem fyllir mann vonleysi. Ég þurfti til dæmis að leita lengi á fjölmiðlunum til að finna nafnið á framkvæmdastjóranum sem áreitti Áslaugu Thelmu. Áherslan í fréttaflutningnum var öll á henni og manninum hennar. Við erum einhvern veginn miklu meira tilbúin að nafngreina þolandann en gerandann. Hún er alltaf bara „þessi týpa“ sem er með vesen, í staðinn fyrir að áherslan sé á að benda á að gerandinn sé ógeðskall.“

Hvað heldurðu að sé hægt að gera til að viðhorfið breytist?

„Ef ég væri dónakall gæti ég svarað því,“ segir Margrét Erla og hlær kalt. „Þá gæti ég sagt þér hvað ég væri hrædd við ef það kæmist upp um mig í svona máli. En það sem þarf að gera er í fyrsta lagi að viðurkenna að þetta er alvöruvandamál, viðurkenna að rótin að þessari framkomu er að körlum finnst þeim ógnað og að þeir eru litlir í sér. Þannig að ég segi að fyrsta mál á dagskrá þegar svona kemur upp sé að skikka gerandann í sálfræðitíma eða áfengismeðferð. Skikka hann til að horfa inn á við. Það er nefnilega svo algengt viðhorf hjá karlmönnum að það sé skortur á karlmennsku að leita sér hjálpar. Og ef það dugar ekki til að menn taki sig á séu þeir bara reknir. Það verður að vera algjörlega kristalsskýr aðgerðaáætlun til að taka á svona málum innan fyrirtækja. Við verðum að hætta þessari meðvirkni. Núna!”

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Video – upptaka og leikstjórn / Óskar Páll Sveinsson og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -