Leikarinn Al Pacino segist vera himinlifandi yfir fregnum af væntanlegu barni hans og Noor Alfallah. Töluverður aldursmunur er á parinu, hún er 29 ára en Pacino 83 ára. Fyrir á hann þrjú börn sem öll eru komin á fullorðinsaldur en elsta dóttir hans er fjórum árum eldri en Noor.
„Þetta er alveg sérstakt. Ég á mörg börn en að fá að upplifa þetta aftur á þessum aldri er einstakt,“ sagði Pacino.
Parið hóf leynilegt samband þegar Covid-19 faraldurinn stóð sem hæstur. Noor er þekkt fyrir að leita í sambönd með ríkum eldri mönnum. Þegar hún var 22 ára hóf hún samband við tónlistarmanninn Mick Jagger sem þá var 74 ára. Einnig var hún með sextuga milljarðamæringnum Nicolas Berggruen.

Sögur segja að Pacino hafi farið fram á faðernispróf, hann hafi ekki talið sig geta eignast fleiri börn.