Anna Kristjánsdóttir er hálf sár út í lesendur sínar en huggaði sig við áhorf á Séð og heyrt þáttum Þorsteins J.
Í nýjust dagbókarfærslu sinni skrifar vélstjórinn og húmoristinn Anna Kristjánsdóttir um þynnku og Séð og heyrt. Í fyrri hluta færslunnar segist hún hafa verið að leitast eftir vorkunn þegar hún skrifaði í gær um þynnku sem hún þjáðist af eftir gott laugardagskvöld á paradísareyjunni Tenerife, þar sem hún hefur búið síðustu ár. Hins vegar hafi fólk bara hlegið að henni.
„Dagur 2015 – Feimið og viðkvæmt blóm.
Í gær tjáði ég mig eitthvað um drykkjuskap minn kvöldið áður og var eiginlega að mælast til smávegis vorkunnsemi frá lesöndum mínum, en það var öðru nær. Tólf lesendur pistlanna minna hlógu bara að heilsuleysi mínu þar sem ég lá fyrir dauðanum í þynnku morgunsins.“
Anna hresstist þó fljótlega og fékk sér brauðtertu á bar sem hún kallar Klausturbar:
„Eitthvað hresstist ég þegar leið á morguninn og í hádeginu skrapp ég á Klausturbar (Nostalgíu) í von um pönnukökur og brauðtertu. Sævar ábóti og pönnukökusérfræðingur reyndist enn vera fjarverandi vegna veikinda náins ættingja og varð ég því að fyrirgefa honum pönnukökuleysið. Herdís abbadís bætti hinsvegar fyrir pönnukökuskortinn með brauðtertu, reyndar með þeim afleiðingum að ég fór pakksödd heim eftir að hafa fengið mér tvöfaldan skammt sem segir allt um gæðin.
En ég get víst sjálfri mér kennt um græðgina.“
Í seinni hluta dagbókarfærslunnar skrifar Anna um Séð og heyrt þætti Þorsteins J. sem sýndir eru á Stöð 2. Anna er afar hrifin af þáttunum þó hún hafi eitt sinn í fyrndinni verið fúl út í blaðið.
„Sunnudagskvöldið er edrúkvöld þótt ég sé risin upp frá dauðum og heilsan komin í lag, sit ein heima og horfi á síðasta þáttinn af Séð og heyrt. Alveg bráðskemmtilegir þættir og upp rifjuðust nokkur atvik í tengslum við Séð og heyrt þar sem ég var í blaðinu, t.d. þegar við krakkarnir úr Brúarlandsskóla héldum upp á það þegar 40 ár voru liðin frá því er Birgir D. Sveinsson hóf að kenna við skólann haustið 1960 og Auður Laxness og móðir Sigríðar bekkjarsystur minnar, bauðst til að halda samkvæmið að Gljúfrasteini, þá orðin ekkja. Allt í einu birtust blaðamaður og ljósmyndari frá Séð og heyrt og við Auður vorum aðalefnið í næsta blaði á eftir.
Ég var dálítið ósátt við þessa uppákomu á þeim tíma, enda vita allir sem mig þekkja að ég er ákaflega feimið og viðkvæmt blóm, en aldarfjórðungi síðar er ekki hægt annað en að hafa gaman af þessu.
Ég hefi einungis séð þrjá síðustu þættina af þessum sex um Séð og heyrt og vildi gjarnan komast í að sjá fyrstu þrjá, en samt. Takk fyrir mig Þorsteinn Joð.“