- Auglýsing -
Anna Kristjánsdóttir er ánægð með Íslandsdvölina fyrir utan peningaeyðsluna.
Í nýjustu dagbókarfærslu vélstjórans Önnu Kristjánsdóttur, færslu númer 1776, talar hún um Íslandsdvöl sína en hún dvaldi fyrir nokkru í fimm vikur á Íslandi en hún býr, eins og alþjóð veit, á Tenerife og hefur gert síðustu ár. Segir Anna að stjanað hafi verið við hana á meðan á dvölinni hafi staðið en finnst hún hafa eytt óþarflega miklum fjárhæðum, eitthvað sem langflestir kannast við hér á landi.
„Dagur 1776 – Ísland.
Ég var á Íslandi um daginn, ekki bara í einn eða tvo daga, heldur heilar fimm vikur. Það var stjanað við mig. Ég bjó í fríu húsnæði takk veri vinafólki mínu og fékk Mercedes Benz til umráða allan tímann án endurgjalds, en þurfti vissulega að sjá um að fylla dásemdina af bensíni meðan á dvöl minni stóð. En eins og ég sagði, það var stjanað við mig allan tímann og ég hefði ekki getað haft það betra og þó. Stóran hluta tímans sem ég dvaldi á landi forfeðra minna rigndi eða var foráttubrim, eitthvað sem ég hefði viljað forðast meðan á dvölinni stóð.“ Þannig hefst sunnudagsfærsla Önnu en í seinni hlutanum telur hún upp hvað allur peningurinn sem hún eyddi, fór í.
„Mér sýnist að þrátt fyrir allt atlætið sem ég hlaut, eyddi ég samt hundruðum þúsunda í allskyns óþarfa. Mér bar að sjálfsögðu skylda til að taka þátt í að fæða mig og ferðir í Ríkiskaupfélagið kostuðu sitt og ég þurfti að sjá til þess að Mjallhvít litla væri ávallt velfyllt af eldsneyti og ef ég nálgaðist gamla miðbæinn þurfti ég að borga fyrir að leggja bílnum. Svo keypti ég mér hlífðarfatnað því á Íslandi lifir fólk ekki á nærklæðunum einum eins og við gerum heima hjá mér.
Og ég keypti mér eitt og annað sem ekki telst í frásögur færandi.“