Anna Kristjánsdóttir hefur engar áhyggjur af veðrinu framundan enda er blessuð blíðan með lögheimili á Tenerife.
Í nýjustu dagbókarfærslu sinni talar vélstjórinn og þjóðargersemin Anna Kristjánsdóttir um veðrið á Tenerife og fjárfestingar. Í fyrri hluta færslunnar, sem hún birti á Facebook í morgun, er veðrið henni hugleikið en hún segir Íslendinga eiga alla hennar samúð en appelsínugul viðvörun er yfir öllu landinu nú þegar lægð nálgast landið óðfluga.
„Dagur 2003 – Blessuð blíðan.
Mikið er nú gott að vera stödd hér suður í höfum í blíðskaparveðri og laus við áhyggjur af veðrinu á Íslandi. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég vildi breyta húsaleigusamningnum frá áramótum yfir á mitt sumar. Að flytja til Íslands um hávetur er svo fjarri mér að ég get vart hugsað þá hugsun til enda.
Til að fyrirbyggja allan misskilning, þá gerði ég mér grein fyrir því miðað við lögin frá því í desember 2023, að afnám persónuafsláttarins yrði mér nánast um megn miðað við lífeyrisgreiðslurnar mínar og því yrði ég að flytja heimilisfestið til Íslands og hugsanlega einnig sjálfa mig. Með því að þetta ákvæði var afnumið með lagabreytingu fyrir jólin 2024 liggur mér ekkert á lengur og mun vonandi eiga tvö til þrjú ár til viðbótar hér í Paradís.
Það er samt fremur svalt hér þessa dagana, hitinn rétt skríður yfir 20°C á daginn og fer niður í 15°C á nóttunni. Þið hin sem búið á Íslandi eigið svo alla mína samúð í dag og á morgun, en vonandi fer allt vel.“
Í seinni hluta dagbókarfærslu Önnu talar hún um ársuppgjör en hún á hlut í nokkrum fyrirtækjum, þar á meðal Icelandair.
„Nú er komið að ársuppgjörum fyrir okkur fjárfestana. Enn einu sinni veldur ársuppgjör Icelandair mér vonbrigðum þrátt fyrir að forstjórinn hafi talað upp væntingarnar. Ef mig misminnir ekki, hefur Icelandair ekki greitt út arð síðan 2017 frekar en 2018. Eru kannski of margir millistjórnendur á of háum launum? Kannski kominn tími til að hrista upp í hópnum og bæta kjör þeirra sem eru á gólfinu eða í háloftunum, fólkinu sem vinnur verkin?“
Þá talar Anna um önnur fyrirtæki sem hún á hlut í en uppgjörið er misgott hjá þeim eins og gengur og gerist.
„EIK er með jákvæðar niðurstöður og kannski örlítil aukning á arði úr þeirri áttinni, en Eimskip sýnir verri afkomu en áður. Það er eðlilegt úr því félagið lét Færeyingana um að ná til sín bílaflutningunum og þá í gegnum Þorlákshöfn. Næstu dagana munu félögin birta ársreikningana hvert af öðru og vafalaust mun bros mitt breikka eftir því sem gróðinn verður meiri, en annars verður fýlusvipur.“
Anna segir að fjármagnstekjur hennar eftir skatta í fyrra hafi verið lægri en síðustu tvö ár á undan og að hún hefði allt eins getað geymt peninginn inn á bankabók.
„Fjármagnstekjur mínar eftir skatta í fyrra voru lægri en bæði 2022 og 2023 þrátt fyrir aukningu hlutafjáreignar minnar. Ég hefði alveg eins getað geymt aurana mína inni á bankabók og fengið meira í vexti og ekki hefur Icelandair aukið við vonir mínar. Ég á hluti í nokkrum félögum sem hafa gefið gott af sér svo það er óþarfi að örvænta strax, en samt. Að eiga hluti í tíu félögum er alveg nóg fyrir gamla konu sem lifir af lífeyrissparnaði og fjármagnstekjum og sleikir sólina suður í höfum ellefu mánuði ársins.
If you can´t beat them, join them!“