Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-8.2 C
Reykjavik

Anna Kristjáns fór í óvænta óvissuferð: „Síminn segir að þetta sé rétt leið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Kristjánsdóttir fór í óvænta óvissuferð á Tenerife.

Gleðigjafinn og húmoristinn Anna Kristjánsdóttir skrifar færslur á hverjum degi um lífið á Tenerife eða Paradís eins og hún kallar hina spænsku eyju. Færslurnar birtir hún á Facebook við fádæma vinsældir.

Í færslu gærdagsins sagði hún frá óvissuferð sem sími vinkonu hennar sendi þær í en tilgangurinn var sá að finna fallegt náttborð sem vinkonan var að kaupa í gegnum netið. Þá segir Anna einnig frá skógjöf Giljagaurs. Hér er færslan skemmtilega í heild sinni:

„Dagur 1218 – Óvissuferð.

Íslensk kona sem býr hér í Los Cristianos, nafn hennar skiptir ekki máli, bað mig um að fara með sér til San Isidro að sækja gullfallegt gamaldags náttborð (svona antik) sem hún hafði keypt á netinu. Þar sem raddstýrða leiðsögutækið í Mjallhvíti er fremur flókið ef reynt er að skrá inn staðsetningu, en raddstýringin er ekki alltaf tilbúin að hlýða á mína fögru rödd, ákváðum við að notast við síma konunnar og sagði hún mér til og við ókum af stað.
Þegar við komum að stóra hringtorginu í San Isidro sagði hún mér að fara leið til vesturs sem var eins og leiðin til baka út á hraðbrautina, en reyndar aðra akrein og framhjá leiðinni út á hraðbrautina og við héldum síðan upp brekkurnar.
„Ertu alveg viss um að þetta sé rétt leið? Við erum komnar út úr San Isidro.“
„Síminn segir að þetta sé rétt leið„“ var svarið, og ég þorði ekki öðru en að hlýða.
Við héldum áfram upp brekkurnar í gegnum eitthvert hverfi sem hét Los Cardones og síðan hlykkjótta vegi til austurs í gegnum einhver þorp og síðan áfram upp enn fleiri brekkur uns við vorum komnar út í sveit. Svo komu skipanir um að fara hérna til vinstri og þar með var ég komin út á einhvern troðning sem lá að húsaþyrpingu eigi allfjarri þar sem troðningurinn endaði.
Þetta á að vera hérna sagði konan, ég ætla að ganga í kringum húsið og hún fór úr bílnum að leita seljanda borðsins. Á meðan fann ég annan troðning sem ég taldi mig komast yfir hjálparlaust, enda er hún Mjallhvít mín fullvaxin. Þegar ég hafði farið þar yfir blasti við mér malbikaður vegur svo að ég fór að efast um gagnsemi leiðsögutækis símans hjá vinkonu minni.
Á meðan hafði hún fundið seljanda borðsins og við komum borðinu í bílinn. Svo var ekið af stað á ný, en nú á malbiki og komum við fljótlega inn í þéttbýlið í San Isidro.
Svo komum við að hringtorgi: „Þú átt að fara hérna til hægri,“ segir konan.
Nei, sagði ég, „ég ætla að keyra beint áfram.“
Áfram var ekið niður brekkurnar og í gegnum miðbæ San Isidro, framhjá strætisvagnastöðinni og síðan inn á hraðbrautina og heim.
Ég er ekki í nokkrum vafa um að konan leiðbeindi mér samkvæmt sinni bestu vitund, en öllu meiri vafi ríkir um leiðsögutæki símans og minnist ég þess er leiðsögutækið í henni Mercý minni (gamli Benzinn með tuskutoppinn) ætlaði að senda mig sjóleiðina til Los Cristianos frá Costa del Silencio um árið og hún Mercý mín kunni ekki einu sinni að synda.
—–

Giljagaur skildi eftir konfektkassa í skónum mínum í nótt. Eins og sjá má af myndinni er hann ekki frá Freyju alías Ölmu leigufélagi, heldur frá Nóa. Takk Helga og Þóra. Enn og aftur sannast að ég hefi verið góð við hundana í nágrenninu og á alltaf til hundanammi í veskinu mínu ef ég skildi rekast á Buddý, Pabló eða Texas el Perró.“

Gjöf „Giljagaurs“
Ljósmynd: Facebook

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -