Anna Kristjánsdóttir rifjar upp Covid-tímabilið og það þegar falskur fiðluleikari reyndi að gleðja gesti veitingarstaðar, í nýjustu dagbókarfærslu sinni.
„Maðurinn með fiðluna.
Það hafði verið útgöngubann í tvo mánuði. Enginn fékk að fara úr húsi nema einu sinni á dag til að kaupa ítrustu nauðsynjar, en svo kom að því að létta þurfti á útgöngubanninu. Veitingastaðirnir byrjuðu að opna einn af öðrum og um leið spruttu upp hinir ýmsu aðilar sem vildu fá sinn hluta af uppbyggingunni.“ Þannig hefst dagbókarfærsla Önnu númer 1855 en það er sá dagafjöldi sem liðinn er síðan hún flutti búferlum til Tenerife.
Því næst segir hún frá fölskum fiðluleikara:
„Meðal þeirra var eldri maður sem spilaði á fiðlu fyrir gesti veitingastaðanna. Ég gat ekki hrósað honum fyrir góðan fiðluleik, þvert á móti. Hann var hræðilegur fiðluleikari, en samt. Kosturinn við manninn var að hann reyndi að gleðja gesti veitingastaðanna þrátt fyrir að hafa engan hæfileika til að spila á fiðlu. Við sem hlustuðum á manninn að reyna að spila á fiðlu, gerðum okkar besta, gáfum honum evru eða tvær, enda gerðum við okkur grein fyrir því að gamli maðurinn var einungis að reyna að lifa af kreppuna sem fylgdi Cóvið tímabilinu.“
Segist Anna vera farin að sakna hinna fölsku fiðlutóna gamla mannsins.