Arna Ýr Jónsdóttir, áhrifavaldur, lenti í óskemmtilegri reynslu á dögunum en sagði hún Instagram-fylgjendum sínum frá því í gær.
„Ég ætla að fara varlega í þetta topic en það er rosa alvarlegt eða sorglegur hlutur búinn að vera í gangi hjá mér síðustu vikur,“ segir Arna Ýr. Í framhaldinu segist hún sjaldan láta hluti stoppa sig og að hún leggi iðulega allan sinn metnað í þau verkefni sem hún taki sér fyrir hendur.
„Það er atvik sem kom upp fyrir einhverjum þremur til fjórum vikum síðan sem hefur látið mig efast um að ég nenni að halda áfram í því sem ég er að gera. Ég er komin yfir það blessunarlega séð enda er ég með frábært fólk í kringum mig, þá er ég að tala um Noah nappies, fyrirtækið mitt“.
Þá segir hún erlent fyrirtæki hafa sakað hana um að stela hönnun frá þeim og sendu henni að eigin sögn mjög harðorða hótun. Fyrirtækið lét ekki þar við kyrrt liggja heldur talaði það illa um vörumerki Örnu opinberlega.
„Það er búið að sýna fram á að ég var alls ekki að stela neinni hönnun né herma eftir neinum,“ segir Arna og bætir við að erlenda fyrirtækið sem um ræðir selji vörur til verslunar á Íslandi. „Málið er að þetta fyrirtæki er með vörur sem eru seldar í einni búð a Íslandi og það er bara svo ótrulega vont að vita af því að þessi búð tók tæknilega séð þátt i þessu“. Arna vill ekki nafngreina verslunina sem um ræðir en segist mjög vonsvikin yfir því að samkeppnin á markaðinum sé svona.
„Þetta fyrirtæki erlendis var búið að brjóta a mínu fyrirtæki á margvíslegan hátt, bæði með meiðyrðum, stolnu markaðsefni og já, þannig að ég fékk mér lögfræðing“.
Undir lok myndskeiðsins segist Örnu framkoman í sinn garð ljót en sem betur fer hafi hún fengið mjög góðan stuðning. Þá benti hún á myndskeið sem hún birti á Instagram-síðu Noah nappies þar sem hún útskýrði málið einnig á ensku. Arna Ýr á von á sínu þriðja barni með Vigni Bollasyni en saman eiga þau systkinin Ástrósu og Nóa. Það eru því spennandi tímar framundan hjá fjölskyldunni og óskum við þeim alls hins besta.