Auðunn Lúthersson, betur þekktur sem Auður, gefur út glænýtt lag í dag. Lagið verður gefið út samtímis á ensku og á íslensku og kemur það það út á ensku undir listamannsnafninu Luthersson.
Auðunn hefur búið í Los Angeles frá því í ársbyrjun 2023 og vinnur þar við lagasmíðar og hljóðupptökustjórn.
„Þetta er lag sem mér þykir mjög vænt um, ég tók upp sönginn heima í stofu í LA. Þar vinn ég nær alla daga,“ segir Auðunn í tilefni útgáfunnar. Og heldur áfram: „Mér finnst gaman að geta gefið þetta út bæði á ensku og á íslensku en upphaflega samdi ég textann á íslensku. Hér er maður náttúrulega farinn að hugsa oft á ensku sem sést vel á því að innkaupalistinn minn fyrir Whole foods er mjög fyndin samtvinningur af ensku og íslensku. Þetta hafa verið sannkölluð straumhvörf í lífi mínu. Að búa hér í Los Angeles, baða mig mig í stórborgarlífinu, kynnast nýju fólki og skapa. Ég er með tvöfalt ríkisfang frá Bandaríkjunum og Íslandi enda alinn upp í Pittsburgh í Pensylvaniu og síðar Hafnarfirði. Ég elska bæði þessi lönd mín, Ísland og Bandaríkin, svo mér finnst fallegt að geta gefið út lagið íslensku sem Auður og á ensku undir nafninu Luthersson. Ég er mjög stoltur af hljóðheiminum og laginu í heild. Mig langaði að lagið hljómaði eins og rigning.”
Lagið er pródúserað og flutt af Auðuni Lútherssyni en hljóðblandað af Styrmi Haukssyni. Auðunn hefur að undanförnu gert tónlist fyrir hina ýmsu aðila í Los Angeles, meðal annars fyrir sjónvarpsseríuna Power Rangers: Cosmic Fury á Netflix, og unnið með tónlistarfólki vestanhafs eins og Social House, YSA, Adelina og Sally Han. Þá hélt Auðunn tónleika á Iðnó síðastliðinn desember. Lagið sem heitir Sé þig alltaf fyrir mér og I Can Always Picture You kemur út á streymisveitur í dag. Hægt er að hlusta á lagið hér og horfa á myndbandið hér fyrir neðan:
View this post on Instagram