Íslensk-bandaríski leikarinn, áhættuleikarinn og framleiðandinn Charles Róbert Onken er áberandi í nýlegri taílenskri auglýsingu.
„Bad Boy“ Charlie er nafn sem margir kannast við eða að minnsta kosti þeir sem voru upp á sitt besta á síðustu öld. Charles Róbert Onken var ansi áberandi í fjölmiðlum á Íslandi á síðasta áratug 20. aldarinnar en hann var aðallega þekktur fyrir að vera einn fyrsti karlkyns stripparinn á Íslandi. Þá lék hann í einu ljósbláu myndinni sem framleidd var fyrir íslenskt sjónvarp, Leyndardómar skýrslumálastofnunar. En svo hvarf Charlie af sjónarsviðinu um tíma. Árið 2019 skaut hann aftur upp kollinum þegar DV sagði frá því að hann væri nú fluttur til Bangkok í Taílandi þar sem hann elti drauminn sinn um frægð og frama.
Og það virðist hafa gengið nokkuð vel hjá Charlie okkar en 2020 lék hann í indverska stríðsþættinum The Forgotten War og brátt kemur út kínversk-taílenska myndin Double Acton 2, þar sem hann leikur mafíuforingja. Mannlífi barst svo rétt í þessu ábending um að Charlie hefði verið áberandi í nýlegri taílenskri auglýsingu. Skartar hann þar ansi virðulegu hvítu alskeggi og klæðist í fínum jakkafötum. Leikur hann forstjóra fyrirtækis sem mætir á fund en innkoma hans er ekki eins glæsileg og við var að búast. Hægt er að sjá auglýsinguna skemmtilegu hér fyrir neðan.