Baldur Þórhallsson er mjög heimakær og kann ekki aðeins á þvottavél, heldur þurrkara líka. Hann er alæta á tónlist og segir Felix frábæran „heimilis Dj“. Uppáhalds ljóð Baldurs er ljóð eftir maka hans, Felix Bergsson og stærstu stundirnar í lífi hans eru barneignirnar og barnabörnin.
Uppáhaldsstaður á Íslandi?
Ég er alinn upp á bænum Ægissíðu í Rangárvallasýslu og er mjög heimakær
maður. Bærinn er enn í eigu fjölskyldu okkar og þangað er alltaf gott að
koma. Hér koma auðvitað margir staðir til greina, en ég væri að skrökva
ef ég segi eitthvað annað en það.
Á forseti að sitja lengur en tvö kjörtímabil?
Enginn leiðtogi er ómissandi og regluleg endurnýjun kjörinna fulltrúa er
merki um heilbrigt lýðræði. Að lokum er það hins vegar þjóðin sem ræður
því hversu lengi valdhafar sitja í sínum stólum. Við höfum þó nokkur
dæmi um að forsetar sitji lengur en tvö kjörtímabil og hlotið töluvert
fylgi í fleiri en tvö kjörtímabil. Hvort að forseti eigi að sitja lengur
en tvö kjörtímabil er því alltaf ákvörðun þjóðarinnar, og ég treysti
þjóðinni fullkomlega fyrir því verkefni.
Hvaða breytingar viltu sjá á stjórnskipan Íslands?
Ég myndi vilja sjá aukna valddreifingu tryggða svo að heimamenn fái
meiru ráðið um sín málefni. Ákvarðanir eiga að vera teknar sem næst þeim
sem þær ákvarðanir hafa áhrif á.
Hver er þinn uppáhaldsforseti?
Nelson Mandela.
Finnst þér að gera eigi kröfu um fleiri fjölda meðmælenda
frambjóðenda til embættis forseta Íslands?
Ég tel að við þurfum að nálgast svona breytingar mjög varfærnislega. Að
margir vilji í framboð er ekki galli á lýðræðinu, heldur
styrkleikamerki. Ég tel að fjöldi einstaklinga sem hafa náð að safna
nauðsynlegum meðmælum í undanförnum kosningum hafi ekki verið of mikill.
Þá myndi ég segja það varhugavert að forsetar eða forsetaframbjóðendur
hafi aðkomu eða skoðanir á því að gera öðrum erfiðara fyrir að bjóða sig
fram.
Hver er þín helsta fyrirmynd í lífinu?
Afi minn, Þorgils Jónsson. Hann var bóndi á Ægissíðu þar til hann
veiktist og ég tók við búinu af honum 13 ára gamall. Ég áttaði mig
kannski ekki á því fyrr en löngu seinna hvað það var margt í hans fari
sem smitaðist yfir á mig, og ég tel mig mjög heppinn að hafa fengið
tækifæri til þess að læra af honum.
Hver er uppáhaldstónlist þín?
Ég er algjör alæta á tónlist. En svo bý ég auðvitað með Felix Bergssyni
og fæ því bara frekar lítið að segja um tónlistarval á heimilinu og í
bílnum. Felix er frábær heimilis DJ og ég kvarta ekki yfir þessari
verkaskiptingu.
Hefurðu neytt ólöglegra fíkniefna?
Nei.
Gerði Ólafur Ragnar Grímsson rétt með því að beita neitunarvaldinu á
sínum tíma?
Já. Ég tel það eina grundvallarskyldu forseta að standa vörð um þjóðina.
Ef það gerist að Alþingi gengur fram af sér og setur lög í landinu sem
ganga á grundvallarréttindi einstaklinga, þá ber forseta að vísa þeim
málum til þjóðarinnar.
Fyrsta málið sem Ólafur Ragnar synjaði staðfestingu fjallaði um
fjölmiðla. Fjölmiðlafrelsi er hornsteinn lýðræðis í landinu og hvers
kyns takmörkun á starfsemi þeirra er mál sem á heima hjá þjóðinni sem
svo tekur afstöðu með eða á móti.
Mér finnst svo það sama eiga við í málum þar sem gjá hefur myndast milli
þings og þjóðar. Þar ætti forseti að beita sér þannig að niðurstaða
fáist sem fólkið í landinu getur unað við. Icesave málin voru t.d.
þannig vaxin og Ólafur Ragnar gerði rétt þar.
Hver var stærsta stundin í lífi þínu?
Stærstu stundirnar voru að eignast börn og barnabörn, að sjálfsögðu. Það
er alveg einstök lukka í lífinu að fá að njóta þess að fylgjast með
börnum sínum vaxa og dafna og fá svo barnabörn í hendurnar. Það jafnast
ekkert á við það.
Hver eru mestu vonbrigðin?
Júróvisjón. Aftur og aftur.
Fallegasta ljóðið?
Augun þín eftir Felix Bergsson.
Besta skáldsagan?
Bróðir minn ljónshjarta
Hvað er það besta við Ísland?
Íslensk náttúra er auðvitað það besta við Ísland.
Kanntu á þvottavél?
Já. Og þurrkara líka!
Ef þú ættir eina ósk, Íslendingum til hagsbóta, hver væri hún?
Ég myndi vilja sjá jákvæðari og lausnarmiðaðri umræðu. Mér finnst ég
skynja aukna skautun í samfélaginu. Mér finnst hópar vera að dragast frá
hvorum öðrum frekar en hitt og tel það mjög varhugaverða þróun. Mín eina
ósk væri því að þjóðfélagsumræða færðist í jákvæðari búning sem yrði svo
til þess fleiri tæki þátt í umræðum um samfélagsmál. Lykillinn að góðum
lausnum á flóknum málum sem eru á sveimi í dag og munu koma upp í
framtíðinni er aðkoma sem allra flesta að slíkum lausnum. Jákvæðni og
lausnarmiðuð umræða er þannig algjört lykilatriði og eitthvað sem
forsetinn getur og á að beita sér fyrir.
Að þínu mati, hvert er helsta hlutverk forseta Íslands?
Helsta hlutverk forseta er að veita stjórnvöldum aðhald, t.d. við myndun
ríkisstjórna. Þess vegna má forseti aldrei verða meðvirkur með öðrum
valdhöfum í landinu. Forseti er eini þjóðkjörni fulltrúi þjóðarinnar og
er því eini embættismaðurinn sem er í beinu og milliliðalausu sambandi
við þjóðina.
Hann þarf alltaf að vera tilbúinn til þess að taka í neyðarhemilinn ef
Alþingi eða framkvæmdavaldið fer fram úr sér í sínum störfum.
Borðarðu þorramat?
Já. Ég borða mjög mikinn þorramat.
Ertu rómantísk/ur?
Já. Mér finnst ég hafa staðið mig býsna vel í því í gegnum árin. Hvort
að mér hafi raunverulega tekist það eða að Felix taki bara viljann fyrir
verkið, því verður Felix auðvitað að svara. En jú, mér finnst það og mér
finnst það mikilvægt.
Í stuttu máli; hvers vegna ætti að kjósa þig til embættis forseta
Íslands?
Því ég vil standa vörð um lýðræðið, mannréttindi allra í samfélaginu,
menningu okkar og samheldni með því að tryggja að landið sé og verði
alltaf ein heild. Það gerum við með því að draga það fram sem sameinar
okkar frekar en það sem sundrar. Þá finnst mér mikilvægt að forseti sé
aldrei meðvirkur með ráðandi öflum í landinu og að allar hans ákvarðanir
séu teknar með hag heildarinnar í huga.
Mannlíf lagði spurningalista fyrir forsetaframbjóðendur, svo þjóðin fái að kynnast þeim betur. Nú á aðeins einn frambjóðandi eftir að svara spurningalistanum en það er ísdrottningin sjálf, Ásdís Rán Gunnarsdóttir. Kjósi hún að svara mun Mannlíf birta svörin á næstu dögum.