Innanhúshönnuðurinn Berglind Berndsen hannaði glæsilegt eldhús, baðherbergi og forstofu í vönduðu einbýli í Kópavogi. Húsið sem nú er á sölu, stendur við Iðalind 1, og hefur stórbrotið útsýni bæði til suðurs og vesturs. Lindahverfið er eitt það vinsælasta á fasteignamarkaðnum í dag en mikil eftirspurn er eftir eignum í hverfinu. Lind fasteignasala er með eignina, sem er 215 fermetrar, á skrá hjá sér.
Arinninn í borðstofu er glæsilegur og vekur athygli enda hálfgerður skúlptúr. Mött áferðin fer vel með ljósum flísum á gólfi.
Borðstofan er rúmgóð og björt með glæsilegum hljóðeinangrandi viðarklæddum vegg. Mikil lofthæð er í húsinu og veggurinn því bæði falleg og góð lausn til þess að dempa hljóð.
Berglind innanhússhönnuður kann vel til verka, enda ein sú vinsælasta í bransanum. Eldhúsið hefur bæði frábært skápa- og borðpláss – eflaust draumaeldhús margra. Vegleg marmaraplata er á borðinu og gert er ráð fyrir vínkæli í eyju. Ofn og gufuofn eru frá Miele.
Þessi ljós setja punktinn yfir I-ið.
Baðherbergið er glæsilegt með flísum á gólfi og veggjum. Innréttinginn er með marmaraplötu, tveimur vöskum og innbyggðum vola blöndunartækjum.
Hlýir litir og teppi á gólfi í stofunni.
Sannkallaður lúxus í þessum garði. Áhugasamir geta nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu fasteignasölunnar.