Björn Þorláksson sá fallega sýn í gær á ferðalagi sínu á Máritíus-eyríkinu.
Rithöfundurinn og fjölmiðlamaðurinn Björn Þorláksson er á ferðalagi undan ströndum Afríku þessa dagana en í gær birti hann ljósmynd af skilti sem hann sá á alþjóðaflugvellinum í höfuðborg Máritíus, en þar er bent á sérstakt bænaherbergi, þar sem ekki er spurt um trú heldur geta allir þeir sem finna þörf á að „geta átt samtal við æðri máttarvöld“ beðið í sama rými. Bendir Björn á fegurðina við þessa hugmynd og bendir ennfremur á að víða í eyríkinu deili múslimar og kristnir bænahúsi. Hér má sjá færsluna í heild sinni:
„Þjóð sem býr til svona skilti og setur víða upp sali til trúariðkunar þar sem mannskepnur á faraldsfæti geta átt samtal við æðri máttarvöld með heimafólki, hefur ekki misst sambandið við víddir andlegs lífs. Á alþjóðaflugvellinum í Port Lous, höfuðborg Máritíus rakst ég á þetta. Salle de Prieres. Heimamenn hafa sagt mér að mörg dæmi séu um að múslimar og kristnir deili sama bænahúsi. Svo vel stendur fólkið sig í að halda friðinn þótt uppruni íbúa sé fjórskiptur og innifeli menningu þriggja heimsálfa. Fallegt á síðasta degi ársins, þegar hugurinn er orðinn viðkvæmur og þarf kannski ekki nema eitt fagurt orð eða fallega hugsun um ástvin, lífs eða liðinn, til að vekja tár á hvarmi.“