Föstudagur 25. október, 2024
5.2 C
Reykjavik

Sölvi varð fyrir áfalli í Kólumbíu: „Á einum degi hrynur því plan mitt um fyrsta skrefið til baka“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sölvi Tryggvason gefur út bókina Skuggi – Saga falls, útskúfunar, upprisu og uppgjörs, hjá bókaútgáfunni Sögur útgáfa, um miðjan dag í dag. 

Bókin fjallar um ósannar sögusagnir sem fóru á kreik um að Sölvi hefði brotið á þremur konum og þann gríðarlega hvirfilbyl sem skapaðist í kjölfar málsins.

Mannlíf birtir nú brot úr bókinni:

„Slaufað í annað sinn

27. desember 2021 – Medellín, Kólumbíu

Ég sit á kaffihúsi í Laureles-hverfinu í Medellín að morgni dags 30. desember þegar ég átta mig á því að leiðin til baka verði lengri og erfiðari en ég hef haldið. Það hefur borist til fjölmiðla að hlaðvarpið mitt sé að fara af stað aftur og kvisast út hvaða viðtöl ég sé að fara að setja í loftið. Fjölmiðlar hafa sett sig í samband við viðkomandi aðila og ekki líður á löngu þar til viðmælendurnir biðja um það einn af öðrum að viðtölin við þá fari ekki í loftið. Fyrst Bogi Ágústsson og svo Krummi í Mínus og Hermann Hreiðarsson knattspyrnugoðsögn.

- Auglýsing -

Á einum degi hrynur því plan mitt um fyrsta skrefið til baka eins og spilaborg. Það er verulega sárt að fá þessar beiðnir hverja á fætur annarri, enda eru öll þessi viðtöl mjög góð og ég veit að allir höfðu viðmælendurnir labbað úr viðtölunum vitandi að þau væru mjög vel heppnuð. Bogi var mjög sáttur og Krummi hafði beinlínis sagt við mig að það hefði verið eins og þerapía að sitja í viðtalinu hjá mér. Hermann Hreiðars sagði að sér hefði fundið viðtalið frábært og ég er sama sinnis. Hermann hringir í mig og gefur mér útskýringar. Ég er á hótelherberginu mínu í Medellín þegar hann hringir í gegnum Facebook messenger. Hann er allur hinn almennilegasti en ég veit strax að erindið er það að hann vill ekki að viðtalið okkar fari í loftið. Hann útskýrir fyrir mér að það sé búið að þrýsta á hann úr fleiri en einni átt og að knattspyrnuhreyfingin sé öll logandi hrædd eftir allt fárið í kringum KSÍ. Þó að ég sé ekki alveg sáttur skil ég hvaðan hann er að koma og að endingu verðum við ásáttir um að geyma viðtalið og birta það mögulega síðar.

Þegar þarna var komið sögu sárnaði mér þetta mjög og fannst þremenningarnir vera að taka afstöðu gegn mér. Ég hafði ekki reiknað með þessum viðbrögðum og taugakerfið fór á ákveðinn hátt sex mánuði aftur í tímann í endurupplifun á slaufuninni um vorið. Samkvæmt umfjöllun fjölmiðla átti ég að hafa verið í gæsluvarðhaldi dagana sem ég tók viðtölin við Boga, Krumma og Hermann, sem augljóslega ætti að nægja til að staðfesta að hlutirnir væru talsvert öðruvísi en haldið hafði verið fram.

En nú þegar rykið er sest sé ég þessa atburðarás með öðrum augum. Miðað við stöðuna í þjóðfélaginu á þessum tíma var það mikil einföldun af mér að halda að ég gæti bara sett þessa þætti í loftið og enginn segði neitt. Eftir á að hyggja er augljóst að viðmælendurnir yrðu settir í þá stöðu að verða einhvers konar andlit fyrir endurkomu mína og að reiðasti hópurinn myndi setja á þá pressu. Auðvitað var þá einfaldasta ákvörðunin að bakka bara út. Eins og með svo margt í þessu ferli tók það mig tíma að setja mig í spor fólks sem ég var sár út í. Eftir að hafa gert það skil ég að það var aldrei neinn persónulegur illvilji að verki eða löngun til að klekkja á mér eða taka afstöðu gegn mér.“

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

dfkjpogv

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -