Brynjar Níelsson barmar sér yfir erfiðri kosningabaráttu í nýlegri Facebook-færslu.
Lögmaðurinn og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins skrifaði færslu á Facebook í gær sem vakið hefur lukku enda full af húmo og háði. Já og svo skýtur hann á Viðreisn, enda er flokkurinn að taka helling af fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum.
„Að standa í kosningabaráttu með tilheyrandi myndatökum og samskiptum við ókunnugt fólk er ekki létt verk fyrir mann eins og mig. Ég á ekki marga óvini en myndavélin og ég eigum enga samleið. Fólk sem hittir mig í fyrsta sinn segir gjarnan að ég sé ekki næstum því eins ófríður í eigin persónu. Svo er mjög stressandi að vera í framboði þegar maður man ekki hvað maður skrifaði á upphafsárum netsins.“ Þannig hefst færsla Brynjars.
Segir Brynjar að hann ætli aldrei aftur á elliheimili í kosningabaráttunni, eftir bitra reynslu.
„Kosningabaráttu tilheyrir að fara í heimsókn á elli- og hjúkrunarheimili. Ég var á Grund í gær og var búinn að safna í kringum mig hóp af vistmönnum og messa yfir þeim um ágæti Sjálfstæðisflokksins í þó nokkurn tíma þegar virðuleg frú á tíræðisaldri spurði mig mjög ákveðið: „Ertu búinn að búa lengi hérna á Grund“? Ég maldaði eitthvað í móinn að sagðist nú vera aðeins 64 ára gamall. „En þú ertu svo assskoti veiklulegur að sjá“ sagði hún þá. Þá kvaddi ég og tilkynnti kosningastjórninni að ég færi ekki á fleiri svona heimili.“
Að lokum notar Brynjar tækifærið og hnýtir í Viðreisn, enda stutt í kosningar og staða Sjálfstæðisflokksins hræðileg í skoðanakönnunum.