Föstudagur 13. september, 2024
9.8 C
Reykjavik

Brynjar sendir Pírötum afmæliskveðju: „Sennilega gagnslausasta stjórnmálaafl sem komið hefur fram“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér hefur verið boðið á 10 ára afmælishátíð Pírata í Reykjavík, en sá merki viðburður verður í Tjarnarsal ráðhúss Reykjavíkur. Í fundarboðinu er því haldið fram að Píratar í Reykjavík hafi verið í fararbroddi í að stuðla að gegnsæi, nýsköpun og lýðræði í samfélaginu.“ Þannig hefst Facebook-færsla meinhornsins og fyrrum þingmann Sjálfstæðisflokksins, Brynjars Níelssonar sem hann birti fyrir stundu.

Eins og allir þeir sem fylgjast með íslenskri pólitík vita er ekki mikill vinskapur á milli Pírata og Sjálfstæðismanna enda hafa þingmenn Pírata, með Björn Leví Gunnarsson fremstan í flokki, verið duglegir að láta höggin dynja á Sjálfstæðismönnum, frá því að flokkurinn var stofnaður fyrir 10 árum síðan. Og nú ætlar flokkurinn að fagna áratugsafmælinu og datt í hug að bjóða Brynjari Níelssyni í veisluna. Brynjar hélt áfram með færsluna:

„Eina augljósa arfleifð Pírata í Reykjavík er aðför að tjáningarfrelsinu. Andstæðar skoðanir er reynt að þagga niður og afgreiða sem falsfrettir, upplýsingaróreiðu eða öfga. Gengið svo langt að krefjast þess að fjölmiðlar þar sem reifuð eru andstæð sjónarmið skuli sviptir opinberum styrkjum. Þetta eru helstu afrek þeirra í þegar kemur að gegnsæi og lýðræði. Vissulega eru þeir í fararbroddi í nýsköpun í fjármálaóreiðu, skipulagsslysum og myglu en þar með er það upptalið. En mesta afrek þeirra er að geta dregið Samfylkinguna og Viðreisn niður á sitt plan, bæði í borginni og landsmálum. Þeim er ekki allsvarnað þegar kemur að því að hafa áhrif.“

Eins og áður sparar Brynjar ekki stóru orðin enda Sjálfstæðismenn duglegir að benda á flísarnar í augum annarra án þess að taka eftir bjálkanum í eigin augum. Þetta sést glöggt í næstu orðum þingmannsins fyrrverandi:

„Tveir stjórnmálafræðingar munu kynna á afmælishátíðinni niðurstöðu rannsókna um stöðu Pírata á Íslandi. Efast ekki um að niðurstaða þeirra sé sú að Píratar hafi verið leiðandi í mannréttindum, lýðræði, nýsköpun og gegnsæi þótt enginn kannist við það. Eina sem fólk man er sundurlaus og óskiljanlegur málflutningur, iðjusemi við að grafa undan mikilvægum stofnunin ríkisins og tillögur þeirra um að allir iðjuleysingar landsins fái framfærslu í nafni borgaralauna. Þetta er sennilega gagnslausasta stjórnmálaafl sem komið hefur fram og sennilega rétt hjá manninum sem sagðist ekki treysta þeim til að fara út í búð fyrir sig þótt þeir hefðu miða.“

Að lokum gerist Brynjar heldur háfleygur í skotum sínum.

„Þetta er afmæliskveðja til Pirata og rétt er að rifja upp að vinur er sá er til vamms segir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -