Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Brynjar Níelsson og eiginkona hans eru með sitt hvort sjónvarpsherbergið á heimili sínu. Þetta upplýsti hinn grínaktugi fyrrverandi aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar, í nýrri Facebook-færslu. „Besta fjárfesting okkar Soffíu í andlegri heilsu var þegar við ákváðum að hafa sitt hvort sjónvarpsherbergið. Áhugamál okkar eru nefnilega afar ólík og á það við sjónvarpsefni einnig.“ Þannig byrjar færslan en svo segir hann frá því að sjónvarpið hans hefði bilað og hann hafi því neyðst til að horfa á sjónvarpið með eiginkonunni. „Það var því mikið ólán hjá mér þegar sjónvarpið mitt gaf upp öndina núna rétt fyrir páska. Þótt ég sé Freki karlinn ræð ég ekki hvað er horft á í sjónvarpi Soffíu.“ Brynjar hélt áfram: „Vilji ég horfa á sjónvarp er því lítið annað í boði en danskar kökubaksturkeppnir, amerískir þættir um brúðarkjóla og fólk sem er með einhverja efnaskiptasjúkdóma og er 600 pund að þyngd og þar yfir.“
Að lokum getur Brynjar ekki stillt sér um að skjóta fast á Hildi Lilliendahl og Þorstein V. Einarsson kynjafræðing: „Náði þó að horfa á frábæran viðtalsþátt „Einkalífið“ við Þorstein kynjafræðing meðan Soffía skrapp út í búð. Þar kom fram hvað hann og Hildur Lilliendahl verða fyrir miklu aðkasti og skít á netinu. Það hlýtur að vera afskaplega erfitt fyrir þau, sem fara svo mildilegum höndum um aðra í orðræðunni. Hvers á þetta yndislega fólk að gjalda?“