Céline Dion er búin að slaufa tónleikaferðalagi sínu um Evrópu vegna veikinda.
Söngdrottningin Céline Dion sagði frá veikindum sínum í desember síðastliðnum en hún greindist nýlega með afar sjaldgæfan taugasjúkdóm sem á ensku heitir Stiff-person syndrome. Sjúkdómurinn veldur vöðvakrömpum sem hafa áhrif á lífsgæði söngkonunnar. Hún hafði þrátt fyrir veikindin stefnt á tónleikaferð um Evrópu sem bar heitið Courage World Tour en í dag tilkynnti hún aðdáendum sínum á Instagram að hún væri ekki tilbúin og þyrfti að slaufa tónleikaferðinni.
„Mér þykir svo leitt að valda ykkur vonbrigðum enn og aftur,“ skrifaði Dion í skilaboðunum. „Ég vinn hörðum höndum við að endurheimta minn fyrri kraft, en tónleikaferðir geta verið mjög erfiðar, jafnvel þegar þú ert 100 prósent. Það er ekki sanngjarnt gagnvart ykkur að fresta sífellt sýningum, og jafnvel þó það sé mér afar sárt, það er best að við slaufum öllu núna þar til ég er tilbúin að stíga aftur á sviðið. Ég vil að þið vitið að ég er ekki að gefast upp og ég get ekki beðið eftir að sjá ykkur aftur!“
Í desember sagði Dion frá því í tilfinningaþrúngnu myndbandi á Instagram, að hún hefði verið greind með hinn sjaldgæfa taugasjúkdóm.
„Ég hef verið að glíma við heilsuvandamál í langan tíma og það hefur verið mér afar erfitt að standa andspænist þessum áskorunum og tala um það sem ég hef verið að ganga í gegnum,“ sagði Dion meðal annars í myndbandinu.
„Því miður hafa kramparnir áhrif á alla þræði míns daglega lífs,“ hélt hún áfram. „Stundum hafa þeir valdið vandamálum þegar ég geng eða þegar þeir leyfa mér ekki að nota raddböndin til að syngja á þann hátt sem ég er vön.“
Dion tók fram að hún væri með frábært teymi í kringum sig, þar á meðal lækninn hennar og börn, René-Charles, 22 ára og 12 ára tvíburarnir Eddy og Nelson, sem hún átti með eiginmanni sínum René Angélil sem lést fyrir nokkrum árum.
„Ég hef von um að ég sé í bataferli.“