Eiríkur Jónsson, fjölmiðlamaður er oft með puttann á púlsinum þegar kemur að málum sem fáir spá í. Í dag kom hann upp um Brynjar Níelsson, nýskipaðan aðstoðarmann Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Það gerði hann á fréttasíðu sinni eirikurjonsson.is.
Eins og alþjóð veit tilkynnti Brynjar nýverið að hann væri hættur á Facebook vegna þess að hann fékk nýja starfið hjá Jóni.
„Jæja, nú þarf ég að kveðja fésbókina tímabundið. Í nýju djobbi er ekki gert ráð fyrir ábyrgðarlausu glensi á samfélagsmiðlum,“ sagði Brynjar fyrir viku.
Eiríkur kom sem sagt upp um Brynjar því samkvæmt rannsókn hans virðist Brynjar alls ekki hættur á Facebook. Birtir hann skjámynd af „læki“ frá Brynjari við færslu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins þar sem Björn gagnrýnir fréttaflutning Rúv af málefnum dómsmálaráðherra.