Chrisyius Whitehead er sennilega frægasti fimm ára drengur heims um þessar mundir en hann sló heldur betur í gegn sjónvarpsþættinum America’s Got Talent í seinustu viku. Hinn fimm ára gamli meistari sýndi hæfileika sem fáir fullorðnir búa yfir, hvað þá börn. Whitehead er nefnilega ótrúlega fær trymbill en hann hefur spilað á trommur síðan hann var eins árs gamall að eigin sögn. Í þættinum trommaði hann lagið Faith eftir Stevie Wonder og ætluðu áhorfendur og dómarar vart að trúa eigin augum. Í þættinum var Whitehead spurður hvað hann myndi gera ef hann myndi sigra keppnina en í verðlaun er ein milljón bandaríkjadala. „Ég myndi deila peningnum með fátæku fólki og heimilislausu fólki og öllum í heiminum,“ sagði undrabarnið. Þegar hann var spurður hvað hann myndi kaupa fyrir afgangspeninginn eftir að hafa hjálpað heiminum svaraði Whitehead: „Ég myndi kaupa 200 poka af slími og leikföng.“