Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Fimm tegundir sjálfsdýrkenda

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sjálfsdýrkendur, eða narsissista, er víða að finna í samfélaginu. Hugtakinu hefur verið fleygt töluvert fram í aukinni umræðu um ofbeldi á undanförnum misserum, en staðreyndin er sú að mikið þarf til að einstaklingur greinist með svokallaða sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun (e. narcissistic personality disorder), sem tilheyrir flokki persónuleikaraskana. Það er þó vel hægt að vera svokallaður sjálfsdýrkandi og bera mörg einkenni sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskunar, þrátt fyrir að ná ekki alla leið í klíníska skilgreiningu.

Með öðrum orðum: Allir með sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun eru sjálfsdýrkendur, en ekki eru allir sjálfsdýrkendur með sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun.

 

Óbeinar reykingar geðsjúkdómanna

Þetta gæti virst dálítið flókið, en samkvæmt skilgreiningum Dr. Ramani Durvasula, bandarísks sálfræðings með mikla þekkingu á persónuleikaröskunum, veltur greining sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskunar eingöngu á því hvort einkennin valdi sjálfsdýrkandanum ama og vanlíðan í daglegu lífi. Slíkt þarf að vera til staðar svo viðkomandi leiti sér aðstoðar og geti að endingu fengið greiningu á persónuleikaröskun. Auk þess þarf viðkomandi að vera með að minnsta kosti fimm af níu einkennum sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskunar til staðar. Hins vegar eru ótal sjálfsdýrkendur sem upplifa ekki slíka vanlíðan og telja sig ekki eiga við nein vandamál að stríða.

„Ef þau upplifa ekki að einkennin séu að valda þeim vanda í daglegu lífi þá munu þau ekki segjast eiga við vandamál að stríða. Þannig að, ef þau gangast ekki við þeim hluta af einkennunum, þá geta þau samt sannarlega verið svokallaðir sjálfsdýrkendur, sem er í raun klínísk skilgreining á því að vera fáviti. Við getum ekki greint fólk með fávitaskap. Við greinum fólk sem kemur sjálft inn með vandamál, eitthvað sem því þykir valda ama eða óþægindum í þeirra daglega lífi,“ segir Dr. Ramani í viðtali hjá Med Circle. Hún lýsir sjálfsdýrkun, eða narsissisma, sem óbeinum reykingum geðsjúkdóma; ástandi sem valdi fólkinu í kringum sjálfsdýrkandann miklum skaða í öllum tilfellum.

„Það að vera í kringum sjálfsdýrkanda er jafn óheilbrigt og að vera sjálfur sjálfsdýrkandi. Ef þú stendur of nálægt verðurðu veikur,“ segir Dr. Ramani. Hún segir greininguna í raun ekki skipta nokkru máli fyrir fólkið í kringum sjálfsdýrkandann – ef viðkomandi upplifir ekki vandamál og fer ekki í greiningu, þá er ástandið engu að síður skaðlegt fyrir fólkið í kring.

- Auglýsing -

 

Stór munur á sjálfsdýrkun og sjálfsöryggi

Dr. Ramani segir kjarnann á sjálfsdýrkun vera lélega sjálfsmynd og óöryggi. Hún útskýrir muninn á heilbrigðu sjálfsöryggi og sjálfsdýrkun:

„Sjálfsöryggi er heilbrigt. Fólk sem er sjálfsöruggt þarf ekki að básúna afrekum sínum af húsþökum eða á öllum samfélagsmiðlum. Fólk sem er sjálfsöruggt þarf ekki að tala yfir annað fólk og afrek þeirra. Fólk sem er sjálfsöruggt þarf ekki á því að halda að afrek þeirra séu ávallt í forgrunni. Fólk sem er sjálfsöruggt býr yfir þannig öryggi gagnvart sjálfu sér og afrekum sínum, að það getur sleppt því að tala um þau.“

- Auglýsing -

Dr. Ramani segir alla sjálfdýrkendur eiga ákveðin einkenni sammerkt. Einkennin eru eftirfarandi:

  • Skortur á samkennd.
  • Mikilmennskubrjálæði – er með upphafna hugmynd um sjálfan sig.
  • Telur sig eiga meiri rétt en aðrir.
  • Yfirborðskennd.
  • Mikil þörf fyrir aðdáun og hrós.
  • Hroki.
  • Tilhneiging til reiði og skapofsa.
  • Ráðskast með aðra og nýtir sér fólk til að fá sínu framgengt.

Algengt er að finna ofangreind einkenni í öllum sjálfsdýrkendum, en hvert einkenni kemur þó fram í mismiklum mæli.

 

Fimm tegundir sjálfsdýrkenda

Samkvæmt samantekt og greiningum Dr. Ramani eru fimm algengustu tegundir sjálfsdýrkenda, eða narsissista, eftirfarandi:

Eitraði sjálfsdýrkandinn

Þetta er talin alvarlegasta tegund sjálfsdýrkanda, sem hefur hvað skaðlegustu áhrifin á annað fólk. Um er að ræða fólk sem jaðrar við að vera með andfélagslega persónuleikaröskun (e. psychopathy). Þetta fólk notfærir sér og ráðskast með aðra sjálfu sér til framdráttar, það lýgur og svíkur, og kunna að notfæra sér kerfið til eigin hagsbóta. Þetta fólk getur oft náð töluverðum árangri í starfi og verið hátt sett innan fyrirtækja eða í stjórnmálum. Það sem greinir þessa einstaklinga frá fólki með andfélagslega persónuleikaröskun er að þeir geta stundum fundið til iðrunar. Það mun þó ekki koma í veg fyrir að það geri þá fjandsamlegu hluti sem það gerir, svo lengi sem það þjónar þeirri eigin hagsmunum. Þessir einstaklingar geta verið mjög illkvittnir, en þegar þú kynnist þeim fyrst eiga þeir það sammerkt að vera afskaplega heillandi.

Mikilmennsku-sjálfsdýrkandinn

Þessum einstaklingum finnst þeir einstakir og að þeir eigi skilið sérmeðferð. Þeir grobba sig gjarnan af afrekum sínum og vilja ávallt sýnast stærri og betri en aðrir. Þeir þurfa á aðdáun annarra að halda og vilja flagga öllu sem þeir eiga og gera – eignum, viðurkenningum, velgengni og öðru. Þeir eru uppteknir af stöðutáknum. Þetta geta verið miklar orkusugur og þeim finnst allt sem þeir hafa að segja mikilvægt og að allir ættu að leggja við hlustir. Þetta segir Dr. Ramani að sé gott dæmi um hinn „klassíska“ sjálfsdýrkanda.

Duldi eða viðkvæmi sjálfsdýrkandinn

Dr. Ramani segir þessa tegund hugsanlega þá dularfyllstu. „Ef heimurinn gæti bara séð hversu frábær ég í raun er, þá væri ég einn af þeim stóru, en enginn skilur mig,“ er eitthvað sem hún segir gott dæmi um þankagang þessara einstaklinga. Sjálfsvorkunn þeirra er mikil og þeim finnst þeir gjarnan á undan sinni samtíð. Hún segir þessa einstaklinga oft eyða miklu púðri í háleit plön og hugmyndir sem síðan verða aldrei að veruleika. Þeir geta oft virst þunglyndir, eru afar viðkvæmir og upplifa það sterkt að heimurinn og fólkið í kring skilji þá ekki. Þeir eiga mjög erfitt með að taka gagnrýni. Samkennd getur reynst þeim erfið og þeim finnst þeir eiga skilið sérmeðferð, vegna þess hve sérstakir þeir séu. Yfirleitt er fyrsta einkennið sem þú tekur eftir í fari sjálfsdýrkanda af þessu tagi lágt sjálfstraust. Þeim finnst heimurinn ganga framhjá sér og upplifa að hann skuldi þeim eitthvað. Þeir virðast daprir og fólk reynir oft að hjálpa þeim og hugsa um þá, en velta síðan fyrir sér hvers vegna þeir séu svona vanþakklátir.

Samfélagslegi sjálfsdýrkandinn

Þessi einstaklingur fer gjarnan í hina ýmsu björgunarleiðangra, starfar sem sjálfboðaliði og leggur ýmsum mannúðarmálefnum lið, en það hefur með hans eigin markmið og ímynd að gera frekar en raunverulegan vilja til að hjálpa öðrum. Hann elskar að fara á fjáröflunarviðburði og í veislur – það er líklega hægt að finna ófáa svona einstaklinga sem hafa gefið háar fjárhæðir til einhvers málefnis og fengið byggingu nefnda eftir sér, svo dæmi sé tekið. Þetta er ekki einstaklingur sem gefur til góðgerðarmála í kyrrþey. Hann þarf á ótal skóflustungum, myndatökum og borðaklippingum að halda. Endurgjöf, viðurkenning og athygli skiptir hann öllu máli. Það geta verið miklar andstæður fólgnar í því hvernig hann kemur fram út á við og hvernig hann síðan kemur fram við sína nánustu og hegðun hans innan veggja heimilisins. Hann getur virst dýrlingur út á við en komið afar illa fram við fólkið í sínum nánasta hring.

Meinlausi sjálfsdýrkandinn

Þessi sjálfsdýrkandi getur verið dálítið grunlaus. Hann er yfirborðskenndur og veraldlegir hlutir skipta hann afar miklu máli. Ímyndin út á við er í fyrsta sæti, sem og stöðutákn, sem minnir stundum á þankagang sumra unglinga. Það er eins og þessir aðilar staðni dálítið í þroska. Það sem greinir þá frá mörgum hinna tegundanna er að þeir eru ekki endilega svo illkvittnir í eðli sínu – það er raunverulega hægt að segja þeim að þeir hafi sagt eitthvað ónærgætið eða dónalegt og þeir verða steinhissa, því það var ekki eiginlegt markmið þeirra. Hins vegar munu þeir gleyma því strax og viðhafa svipaða hegðun og ummæli strax næsta dag – þeir geta bara ekki skilið hvers vegna fólk tekur orð þeirra nærri sér. Þetta eru einstaklingar sem getur verið dálítið skemmtilegt að hafa innan handar í samkvæmum og slíku, svo lengi sem þú hleypir þeim ekki alltof nálægt þér.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -