Laugardagur 1. febrúar, 2025
4.8 C
Reykjavik

Fjölskyldufaðir tekst á við stórt áfall með plötuútgáfu: „Þú stýrir ekki vindinum …“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Atli Þór Sigurðsson greindist með heilaæxli í fyrra en hann stendur nú fyrir söfnun inni á Karolina Fund svo hann geti gefið út tvær plötur með frumsömdu efni.

Atli Þór, sem verður 39 ára á þessu ári, vinnur sem forritari hjá Bláa Lóninu og hefur gert það síðan 2021. Er hann alinn upp í Breiðholtinu en hefur búið í Grafarvogi síðan 2014. Hann er giftur Silju Ísberg en saman eiga þau börnin Elísu Ísberg (fædd 2013), Ölbu Ísberg (fædd 2020) og Orra Ísberg (fæddur 2023).

Æxlið

Það var í mars á síðasta ári sem heimurinn snérist á hliðina hjá Atla Þór og fjölskyldu hans en þá greindist hann með heilaæxli.

„Það æxlaðist þannig að ég greinist með heilaæxli 5.mars 2024 og fer í aðgerð 9.apríl til að taka sýni,“ segir Atli Þór í skriflegu svari til Mannlífs og heldur síðan áfram: „Gengur vel og það er góðkynja. Veikist hins vegar mikið og byrja að fá flog. Enda á því að útskrifast 24.maí eftir að hafa verið sex vikur á Landspítalanum og fer á Reykjalund í endurhæfingu. Það er ekki fyrr en ég er búinn að ná fyrri styrk að ég raunverulega meðtek að ég er með æxlið. Þá hefst úrvinnsla á því.“

Atli Þór hefur spilað á gítar síðan hann var unglingur en segir að það hafi tekið sig svolítinn tíma að „þora að grípa í gítarinn“ eftir að hann kom heim eftir endurhæfinguna en innblásturinn sótti hann í veikindin:

- Auglýsing -

„Ég kem heim 9.júlí og það tók mig smá tíma að þora að grípa í gítarinn eftir allt þetta vesen en það var síðan ekkert mál og allt í einu hafði frá miklu að segja við sjálfan mig og æxlið og allt stússið og fór að skrifa texta og í framhaldi af því lög. Áður en ég vissi var ég kominn með það mörg lög að ég þarf tvær plötur til að koma efninu út.“

Tónlistin þerapía

Þá segir Atli Þór að tónlistin hafi lengi virkað sem einhvers konar þerapía fyrir sig:

- Auglýsing -

„Það gerðist mikið til sjálfkrafa að ég var með þessa tjáningarþörf og í raunverulegri hræðslu við mögulegar afleiðingar æxlisins þá urðu til þessi lög og ákveðið concept. Ég vissi líka að tónlist gæti hjálpað mér að vinna úr tilfinningaflækjunni og hef reynslu af því síðan ég var ungur.“

Atli Þór segist mæla eindregið með því að fólk semji tónlist, þó svo að hæfileikana vanti:

„Ég setti mér því það markmið að gefa út allt þetta efni, á tveimur plötum árið 2025 sem einhverskonar legacy og sem mikilvæg tilfinningaúrvinnsla. Ég mæli rosalega mikið með þessari vinnu þrátt fyrir skort á hæfileikum. Það eina sem þarf er gítar (eða annað hljóðfæri).“

Alltaf með gítarinn 

En dreymir Atla Þór ekkert um frægð og frama?

„Ég byrjaði að spila á gítar á unglingsárum og kunni ekki að syngja og hafði enga reynslu af tónlist. Það æxlaðist síðan þannig að ég var spilandi í öllum partýum sem ég fór í og í einhverjum viðburðum hjá fólki sem ég þekkti (afmælum, ferming, brúðkaup).

Ég sá aldrei fyrir mér að meika það og sé það ekki ennþá fyrir mér. Hætti raunverulega að spila samhliða barneignum og annarri forgangsröðun í lífinu en núna er varla hægt að eiga samtal við mig án þess að ég sé með gítarinn við hönd. Ég er (eða var allavega) ágætis partýreddari en því miður ekki nógu góður til að græða á þessu.“

Atli Þór segist þó hafa metnað og vilji gera þetta almennilega.

„Að sjálfsögðu hefur maður metnað og vill gera þetta almennilega og það kostar þegar maður þekkir lítið af fólki í bransanum. Ég er einnig með það markmið að halda einhverskonar tónleika á árinu og það verður álíka rekstur og Reykjavíkurborg, mjög neikvæður fjárhagslega.

Þannig að ég reyni að hafa lögin áhlustanleg, allaveganna þannig að fólk skipti ekki um stöð en á sama tíma að þetta sé raunverulega frá mér. Þannig að þótt textinn sé oft á tíðum svolítið sár þá reyni ég að hafa einhvern húmor í laginu eins og ég hef fyrir lífinu, þótt það sé stundum erfitt. Ég er mjög opinn með þetta æxlisdrasl og flogin og ég held að það hjálpi líka með úrvinnsluna.“

Bíður fram aðstoð sína

Að lokum mælir Atli Þór með því fyrir fólk að nota sköpunina sem tól gegn andlegri vanlíðan.

„Mæli með fyrir alla, yngri sem aldna, að nota sköpun sem tól til betrunar á andlegum vanda þrátt fyrir skort á hæfileikum. Það getur sett hlutina í samhengi og passað að þú vorkennir þér ekki of mikið. Maður reynir að tileinka sér æðruleysi og er meðvitaður um að maður stýri ekki vindum, maður getur aðlagað seglin.

Á sama tíma er það þannig að allir eiga rétt á því að líða illa, hvort sem það er „bara hitt“ eða „bara þetta“. Hver hefur sinn djöful að draga.

Ef ég get aðstoðað einhvern með tónsköpun eða hvernig maður getur byrjað þá má hver sem er hafa samband við mig t.d á facebook (Atli Thor Sigurðsson) þrátt fyrir hæfileikaskort hjá mér eða viðkomandi einstaklingi.“

Hér má styrkja söfnun Atla Þórs og hlusta á nokkur lög af plötunni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -