Mannlífið iðar í takt við hækkandi hitastig eins og sjá má á hinum ýmsu bæjarhátíðum og skemmtilegheitum á landinu. Næstkomandi laugardag mun Smekkleysa Plötubúð í samstarfi við STAK og Sumarborgir, bjóða upp á fría tónleika með systkinunum Önnu Sóley og Mikael Mána.
Tónleikarnir munu fara fram í Smekkleysu Plötubúð við Hjartatorg í miðbæ Reykjavíkur. Hefjast þeir klukkan 14:00 og standa yfir í um 40 mínútur. Tilefni tónleikanna er útgáfa smáskífunnar Brighter Day sem Anna Sóley gefur út á morgun, 22. júlí. Lagið kemur út á öllum helstu streymisveitum og er forsmekkur af væntanlegri breiðskífu sem kemur út í haust undir nafninu Modern Age Ophelia. Verður platan gefin út af Smekkleysu og mun innihalda lög og texta eftir Önnu Sóleyju. Á plötunni koma saman mismunandi stílar, módern jazz, grúf, popp og alþýðutónlist, ásamt textum „með einn fótinn í raunveruleikanum og hinn í draumheimum,“ líkt og segir í kynningartexta frá Smekkleysu.
Hér er Facebook-hlekkur á viðburðinn: https://fb.me/e/2SvK61hoF