Fimmtudagur 26. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Fullorðin frumsýnd á laugardaginn: „Erum öll bara apar í buxum að þykjast vera skrifstofustjórar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Laugardaginn, 10. september, verður grínsýningin Fullorðin frumsýnd í Þjóðleikhúskjallaranum. Sýningin sló í gegn svo um munar fyrir norðan og gekk tvö leikár hjá Leikfélagi Akureyrar, en er núna loksins komin til Reykjavíkur í samstarfi við Þjóðleikhúsið.

Því eldri sem ég verð, því skýrari man ég eftir hlutum sem aldrei gerðust. – Mark Twain
Ljósmynd: Aðsend

Verkið fjallar á sprenghlægilegan hátt um þau hræðilegu vonbrigði að verða fullorðin og birtingarmyndir þess í gegnum lífið. Þrír leikarar, Árni Beinteinn, Birna Pétursdóttir og Vilhjálmur B. Bragason, leika yfir 50 persónur sem allir geta tengt við á einhvern hátt úr sínu eigin lífi en þríeykið er jafnframt höfundar sýningunnar.

Tíminn nær okkur öllum að lokum
Ljósmynd: Aðsend

Samkvæmt aðstandendum sýningarinnar er Fullorðin sannkölluð hlátursprengja sem engin fullorðin manneskja, óháð aldri, ætti að missa af. „Hvar annarsstaðar geturðu séð náttúrulífsmynd um heillandi samskipti móður og unglings, hlustað á rímnakveðskap um kynsjúkdóma og mætt á reunion hjá útskriftarbekk gaggans 1990, á einum og sama staðnum?“ segir Birna Pétursdóttir í samtali við Mannlíf.

Aðspurð um tilurð sýningarinnar sagði Birna að verkið hefði orðið til í Covid.

„Sýningin er eiginlega hálfgert Covid-afkvæmi. Við Villi höfðum fengið handritsstyrk frá SSNE en vorum bæði á samning hjá leikfélagi Akureyrar þegar Covid skall á og öllu var skellt í lás. Við höfðum þess vegna ekkert að gera í vinnunni og ákváðum í samráði við leikhúsið að búa bara til sýningu. Við fengum Árna Beintein með okkur í lið…aðalega af því það var svo erfitt að horfa uppá hann stara út í tómið í allan vinnudaginn. Við þekktum hann ekki neitt en það reyndist algjör jólapakki að fá hann til okkar. Við erum öll mjög ólík og það kom sér rosa vel. Okkur langaði semsagt bara að kafa svolítið í fullorðinsárin og allar hörmungarnar sem þeim fylgja. Við fengum svo Heklu Elísabetu Aðalsteinsdóttur til að leikstýra ásamt Mörtu Nordal og úr varð mikið hláturkast,“ sagði Birna hress í bragði.

Við hættum ekki að leika okkur þegar við verðum gömul, við verðum gömul þegar við hættum að leika okkur. – George Bernard Shaw
Ljósmynd: Aðsend

Segir Birna að meðgangan hafi verið ansi löng og margt breyst frá því þau byrjuðu að vinna að verkinu.

- Auglýsing -

„Þetta er búið að vera rosa löng meðganga og fæðing vegna Covid en frá því við byrjuðum þarna haustið 2020 höfum við Villi bæði unnið Grímuna og Árna hefur tekist að trúlofa sig, gifta sig og skilja á sama tíma…hann ætti auðvitað skilið verðlaun fyrir þann árangur líka.“

Blaðamaður Mannlífs lá forvitni á að vita hvað Birnu fyndist erfiðast við að verða fullorðin og það stóð ekki á svari.

„Það erfiðasta við að fullorðnast er að þurfa endalaust að þykjast vita hvað maður er að gera. Það er alveg óþolandi. Fólk veit það ekkert. Við erum öll bara apar í buxum að þykjast vera skrifstofustjórar og markþjálfar.“

- Auglýsing -
Við erum öll bara apar.
Ljósmynd: Aðsend

Að lokum segir Birna að þau séu afar ánægð með að vera komin með sýninguna til Reykjavíkur.

„Stemmningin fyrir frumsyningu er geggjuð. Við erum svo ótrúlega glöð að vera loksins komin með sýninguna okkar til Reykjavíkur. Þjóðleikhúskjallarinn er líka fullkominn staður fyrir sýninguna, enda er þetta svona kabarett-revíustemming, barinn opinn og góð stemming.“

Allar frekari upplýsingar um sýninguna má nálgast hér: https://leikhusid.is/syningar/fullordin/#um-verkid

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -