Farþegi Delta Air Lines var handtekinn á laugardag eftir að hafa opnað eina af hurðum vélarinnar og rennt sér niður neyðarútgangsrennibraut. Flugvélin var tilbúin fyrir flugtak á flugvellinum í Los Angeles þegar atvikið átti sér stað en vélin var á leið til Seattle, að sögn lögreglu.
Atvikið á Delta flugi 1714 átti sér stað um klukkan 10:40 að staðartíma en vélin var kyrrstæð á alþjóðaflugvellinum í Los Angeles. Flugvélin, sem er af gerðinni Boeing 737, var á flugbrautinni fyrir flugtak þegar farþeginn fór út úr flugvélinni eftir að hafa virkjað neyðarútgangsrennibrautina.
Starfsfólk Delta náði að handsama manninn áður en lögregla kom á svæðið og handtók hann. „Það er verið að útvega farþegum nýtt flug í nýrri flugvél og við biðjumst velvirðingar á óþægindunum og töfum á ferðaáætlunum þeirra,“ sagði FAA í samtali við fréttamiðilinn CNN í gær. FAA rannsakar nú atvikið sem er heldur óvanalegt en óljóst er hvað manninum gekk til.