Skólastjóri gefur ekki mikið fyrir Söngvakeppnina hingað til.
Tónlistarmaðurinn Stefán S. Stefánsson fannst ekki mikið koma til þeirra laga sem flutt voru á fyrra undankeppniskvöldi Söngvakeppninnar en fór það fram í gær. „Það var aðdáunarvert að sjá fagmennskuna hjá RÚV í kvöld. Sviðið glæsilegt og dans, myndataka í hæsta gæðaflokki,“ skrifaði Stefán á samfélagsmiðilinn Facebook í gær en Stefán er skólastjóri Tónlistarskóla Árbæjar.
„En svo er það tónlistin. Allt þetta unga og hæfileikaríka tónlistarfólk sem þarna kom hlýtur að hafa fjölbreyttari hugmyndir um útsetningar á tónlistinni. Eftir lögin fimm fékk ég á tilfinninguna að ég hefði verið á Teknó festivali. Engar óvenjulegar hljóðfæra samsetningar, minnugur alls kyns hljóðfæra sem Evrópubúar hafa oft haft í frammi í keppninni. Of mikið fannst mér notað úr hljóðgervlabankanum. Ég vona að þessu séu ekki miðstýrt af RÚV, en þessar próduseringar voru alltof keimlíkar og hjálpuðu ekki til við að greina lögin hvort frá öðru. Útsetningarnar eiga að draga sérkenni hvers lags fyrir sig og styrkja persónueinkenni höfundarins.“
En Stefán samdi á sínum tíma lagið Disco Frisco sem er eitt frægasta lag Íslandssögunnar. Hljómsveitin VÆB og söngkonan Aníta komust áfram í úrslitakeppnina sem verður haldin 3. mars.