Þann 25. júlí klukkan 15:15 mun Kristín Guðmundsdóttir, höfundur bókarinnar Tólf lyklar, vera með bókakynningu á Háskólasetri Vestfjarða. Bókin er fyrir fólk af erlendum uppruna sem er búið með grunninn í íslensku.
Þetta er fimmta bók Kristínar fyrir fólk af erlendum uppruna. Þær bækur sem hún hefur gefið út eru: Nýjar slóðir 2020, Óvænt ferðalag 2021, Leiðin að nýjum heimi 2022, Birtir af degi 2023 og Tólf lyklar 2024.
Ástæða þess að hún fór að gefa þessar bækur út af eigin frumkvæði var að vinkona hennar, sem kom til landsins árið 1995, sagði að það væri skortur á góðu lestrarefni fyrir fólk af erlendum uppruna á Íslandi.
Að sögn Kristínar innihalda bækur hennar tólf stuttar, skemmtilegar og sjálfstæðar sögur af ýmsu tagi. Sumar sögunar koma inn á íslenska hefðir og siði. Til að létta fólki lesturinn eru erfið orð, spakmæli og orðasambönd útskýrð með tilvísunum. Og allt á íslensku. Auk þess er ein handteiknuð mynd sem fylgir hverri sögu og styður við tilvísanirnar.
Fyrsti yfirlesari sem kom með ábendingar er kona sem flutti til landsins árið 1995. Hún er myndlistamaður að mennt og segist hafa lært meira í íslensku við lestur bókanna. Auk þess sem kennarar aðstoðuðu við gerð bókanna.
Mannlíf spurði Kristínu hvar sé hægt að nálgast bækurnar og hvernig þeim hafi verið tekið.
„Ég sjálf sel bækurnar og þeim hefur verið tekið vel á bókasöfnun, grunnskólum, framhaldsskólum, tungumála skólum, leikskólum, fyrirtækjum og einstaklingum. Ég hef verið að kynna mig síðan í fyrra á hinum ýmsu stöðum á landinu, sem hefur gengið vel.“
Kristín segist upprunalega hafa skrifað bækurnar fyrir fullorðna en segir að krakkar 10 ára og eldri geti einnig notað þær.
„Bækurnar eru sérstaklega skrifaðar fyrir fólk af erlendum uppruna, sem er búið með grunninn. Ætlunin var að að skrifa fyrir fullorðinsfræðsluna en krakkar frá 10 ára aldri geta lesið sögurnar, sér til skemmtunar og sem námsefni. Það getur gerst að fólk af erlendum uppruna skilja ekki heimamenn þegar þeir tala hratt og óskýrt, svo er erfitt fyrir fólk að finna hvað orðin þýða sérstaklega þegar þau fallbeygjast.“