Gervigreind stakk upp á að Gunnar Smári Egilsson fengi sér eitthvað sem hann vissi ekki einu sinni að væri til.
Gunnar Smári Egilsson sósíalistaforingi skrifaði hnyttna færslu á Facebook í gær en þar sagði hann frá uppástungu gervigreindar, sem sér um að reikna út hvað fólk þarf á að halda og koma auglýsingum um þær vörur fyrir framan augun á þeim, sennilega á Facebook. En varan sem gervigreindin stakk upp á var eitthvað sem Gunnar Smári vissi ekki einu sinni að væri til, hvað þá að hann vantaði þetta. Hér fyrir neðan má lesa færsluna og nánari útskýringu á hinni furðulegu vöru:
„Því er haldið fram að gervigreindin þekki okkur betur en við sjálf. Þessu vill hún nú halda að mér, ekki sokkabelti til að halda sokkunum uppi (sem gervigreindin gerir líklega ráð fyrir að ég eigi) heldur því sem kalla mætti skyrtubelti til að halda skyrtunni niðri. Ég vissi ekki að þetta væri til og enn síður að mig vantaði þetta, og er ekki alveg viss. Ég ætla að sofa á þessu.“