- Auglýsing -
„Þegar ég tek völdin á Íslandi, sem mun gerast, mun ég gera eftirfarandi …“ fullyrðir Glúmar Baldvinsson í nýlegri færslu á Facebook. Ef marka má listann sem hann birtir þá þykir honum töluverðra breytinga þarft og nefnir tíu atriði sem hann helst myndi beita sér fyrir:
1. Leyfa strandveiðar allan ársins hring.
2. Takmarka aflahlutdeild sérhverrar útgerðar að fiskimiðunum við 5 prósent og auka þar með tækifæri annarra landsmanna og auka nýliðun. Og hækka veiðileyfigjöld. Og senda Norsara í fiskeldi heim.
3. Taka upp beint lýðræði að svissneskum hætti svo allir Íslendingar geti kosið um veigamestu hagsmunamál þjóðarinnar hverju sinni í gegnum tölvur sínar.
4. Umbylta kosningakerfinu í átt til persónukjörs og þar með grafa undan alræði flokkanna.
5. Reka seðlabankastjóra og taka upp nýjan gjaldmiðil.
6. Fækka þingmönnum um helming.
7. Fækka hraðahindrunum í Reykjavík og reka borgarstjóra.
8. Innleiða aftur kennslu kristinfræði í grunnskólum.
9. Hækka laun öryrkja og aldraðra og afnema tekjuskerðingu.
10. Endurskrifa stjórnarskrána þannig að tryggt yrði að ég einn færi með völdin til dauðadags. Og þar á eftir sonur minn og svo sonur hans osfrv til eilífðar. Og kannski dætur.
Með fyrirfram þökkum fyrir misjafna áheyrn og fáheyrðar undirtektir.
Glúmur
Skoplegar athugasemdir og umræður hafa sprottið við færsluna og segir Glúmur í einni þeirra að hann sækist eftir að vera alræðisherra eða keisari Íslands, af góðviljuðu gerðinni. „Þetta fjögurra ára lýðræði okkar er ekkert lýðræði. Búum til alvöru lýðræði í anda Sviss. Beint og daglegt lýðræði,“ bætir Glúmur við í athugasemdum.
Þó nokkir hafa bent á þá sorglegu staðreynd að Glúmur eigi sér engan son, svo illa víst er að áform Glúms gangi eftir.
Hér að neðan má sjá færslu Glúms í heild: