Afmælisbarn dagsins er stuðboltinn, gítarleikarinn og söngvarinn Gunnar Ólason. Er hann nú 46 ára að aldri.
Gunnar stofnaði hljómsveitina Skítamóral árið 1989 ásamt þeim Herberti Viðarsyni bassaleikara, Jóhanni Bachmann Ólafssyni trommara og Arngrími Fannari Haraldssyni gítarleikara en þeir eru allir jafnaldrar frá Selfossi. Árið 1997 bættist svo Einar Ágúst Viðarsson í bandið sem náði gífurlegum vinsældum í kringum aldarmótin.
Þá hefur Gunnar tvisvar sinnum tekið þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Fyrra skiptið var með dúettinum Two Tricky með lagið Angel en það seinna með Vinum Sjonna (Brink) árið 2011 með lagið Coming home.
Mannlíf hringdi í þennan gleðipinna og spurði hann út í afmælisdaginn og það stóð ekki á svörum. „Ég ætla bara að fagna deginum í faðmi fjölskyldunnar.“ Aðspurður hvort hann fengi ekki örugglega köku svaraði Gunnar að bragði: „Jú, jú, eflaust.“
En er Gunnar með eitthvað á prjónunum á næstunni? „Nei, það er ekkert planað, bara rólegheit.“
Mannlíf óskar Gunnari til hamingju með afmælið.