Sunnudagur 15. september, 2024
9.5 C
Reykjavik

Hamingjustund í Bæjarbíói á þriðjudaginn: „Einmanaleiki er eins og COVID-faraldur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hamingjustund í Bæjarbíói verður haldin á Hamingjudögum í Hafnarfirði 17. september kl. 20:00.

„Einmanaleiki er eins og COVID-faraldur, hann breiðist hratt út og eykst svakalega,“ segir Linda Baldvinsdóttir, samskiptaráðgjafi og markþjálfi. Talið sé að um fimmtungur Íslendinga eldri en 67 ára upplifi sig oft eða stundum einmana. Linda segir að hún finni í ráðgjöf sinni  mikið ójafnvægi í nútímalífi fólks á öllum aldri. „Það er bara svo mikið að gera hjá fólki.“

Linda ætlar að sporna fótum við á hamingjukvöldi í Bæjarbíói 17. september. Undirtónninn er alvarlegur, einmanaleikinn en hamingjan verður í fyrirrúmi á Hamingjudögum í Hafnarfirði.

„Við ætlum að finna leiðina að hamingjunni. Tengsl, leiðir út úr einmanaleika og ræktun sjálfskærleika verða viðfangsefnin,“ segir hún en viðburðurinn hefst klukkan 20:00. 

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur og höfundur bókarinnar Einmana, fer yfir leiðir út úr einmanaleikanum. Theodór Francis Birgisson, ráðgjafi og vikulegur gestur í Bítinu á Bylgjunni, talar um tengsl á léttum nótum. Sigga Kling, rithöfundur og fyrirlesari, gefur okkur leiðina að hamingjunni. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri opnar og Guðrún Árný söngkona rammar kvöldið inn með því að stýra samsöng og gleði. Sjálf talar Linda um sjálfsást.

„Við horfum í áttina að heilbrigði. Horfum raunsætt á það að nútíminn elur af sér kvíða og einmanaleika og gefum upp leiðina að hamingjuríkara lífi,“ segir Linda.

- Auglýsing -

Hamingjudagar í Hafnarfirði standa yfir í september. Þeir eru nú haldnir í annað sinn en hugmyndin kviknaði í fyrra til að bregðast við ákveðnum vísbendingum um að hamingjustuðull landsmanna fari dvínandi. Heilsubærinn Hafnarfjörður stendur fyrir fjölbreyttum viðburðum til að efla jákvætt viðhorf og stuðla að betri andlegri og líkamlegri líðan – auka hamingjuna, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Linda nefnir hvernig breytt fjölskyldugerð og tengslaleysi sé afleiðing nútímalífsstíls. „Við erum öll svo upptekin. Það er alltaf svo brjálað að gera,“ segir hún og finnur það á eigin skinni. 

„Maður þarf að bjóða heim með góðum fyrirvara. Ömmur og afar eru líka upptekin. Börnin koma ekki heim eftir skóla. Þau borða ekki með fullorðnum því íþróttaiðkunin er jafnvel á matartíma,“ segir hún og horfir til breyttrar fjölskyldumenningar.

- Auglýsing -

„Ég horfi til ungra kvenna í dag. Þær þora ekki segja frá því að þær séu búnar á því,“ segir hún um þá mörgu bolta sem þær þurfi að halda á lofti. Nú þurfi að staldra við, endurskipuleggja fjölskyldur, jafnvel horfa til þess sem vel var gert hér áður.

„Ráðin mín eru: afturhvarf til fortíðar þannig að það myndist tími fyrir einingu og tengsl. Þar sem við lærum að meta okkur sjálf út frá því sem við erum, ekki hvað við gerum,“ segir Linda og bætir við: „Við þurfum að elska okkur sjálf, læra að mynda tengsl og vera hluti af samfélagi þar sem við leysum vanda saman.“ 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -