Nú eru margir eflaust farnir að velta fyrir sér hvaða hárgreiðslu skuli skarta yfir sumarmánuðina. Það er algengt að fólk vilji ýmist létta á hárgreiðslunni á sumrin, gera hana á einhvern hátt „ferskari“ eða lágmarka viðhald meðan það er á faraldsfæti í fríinu.
Samkvæmt Elle eru þetta aðal hártrendin fyrir sumarið 2022.
„Blow out“ í anda tíunda áratugarins
Þessi greiðsla hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarið. Hún er allra helst fyrir hár í síðari kantinum, þar sem töluverðu púðri er eytt í að blása hárið eftir þvott, með hringlaga bursta. Auk þess að mikilvægt að hafa gott fyllingarsprey í handraðanum, til dæmis saltvatnssprey, sem og öflugt hársprey til þess að halda öllu í ákjósanlegu formi. Fylling er lykilatriði hér.
Tagl með miðjuskiptingu
Tagl í sítt hár er alltaf klassískt, sérstaklega á sumrin þegar fólk vill gjarnan halda hárinu frá andlitinu. Það mikilvægasta við þessa greiðslu er skiptingin, en hún skal vera í miðjunni. Taglið má vera bæði hátt og lágt. Til þess að skiptingin haldist eins og hún á að vera er best að skilja eftir lokka sitthvorum megin við skiptinguna og setja afganginn af hárinu í tagl. Því næst er hvor lokkur um sig festur við taglið.
Náttúrulegur þurrkur
Í þessu dæmi er minna meira. Þessi aðferð er hentug fyrir hár í síðari kantinum, þar sem lokkarnir eru látnir þorna á náttúrulega mátann, með því að láta ferska loftið leika um þá. Þetta er þægileg aðferð á sumrin þegar sundlaugarnar eru stundaðar í meiri mæli. Í þessu tilfelli er mælt með góðri hárnæringu sem ekki þarf að skola úr, til dæmis í spreyformi. Saltvatnssprey eða annað fyllingarsprey sem lyftir hárinu í rótina er sniðugt.
Hárklemmur
Ojá, hárklemmurnar eru komnar aftur í öllu sínu veldi og munu vinsældir þeirra bara koma til með að aukast í sumar. Hægt er að fá hárklemmur í öllum stærðum og gerðum, svo allar hártýpur og hárlengdir ættu að geta rokkað þær. Elle mælir með því að greiða hárið vandlega niður að framan með fínni greiðu og setja síðan gel í hárið til þess að tryggja að engin hár komist undan og festa greiðsluna almennilega.
Helmingur uppi, helmingur niðri
Meira frá tíunda áratugnum. Helmingur hársins tekinn upp í tagl, hinn helmingurinn niðri og tveir beinir lokkar teknir út fyrir taglið að framan. Skiptið hárinu fyrir ofan eyru og búið til efri og neðri helming. Efri helmingurinn er því næst settur í tagl, fyrir utan lokk sitthvorum megin sem flæða niður með andlitinu. Ágætt er að slétta lokkana tvo til þess að ýkja útlitið. Fyrir suma er sniðugt að nota smá gel eða hársprey til að sleikja hárið aftur í taglið.
Sléttan
Hár sem er haft alveg slétt er að koma sterkt inn þessi misserin, enda um að ræða töff og klassíska greiðslu. Til þess að ná fram „sléttunni“ skal blása hárið og slétta það því næst vandlega með sléttujárni. Munið endilega eftir hitavörninni, hún gerir í alvöru gæfumuninn þegar kemur að heilbrigði hársins. Byrjið uppi við ræturnar og sléttið hvern lokk alla leið niður.
Hér ættu í það minnsta síðhærðir að geta tekið gleði sína og prófað einhverja af þessum greiðslum sem munu slá í gegn með hækkandi sól.