Framlag Íslands í Eurovision söngvakeppninni í ár, Scared of Heights sem Hera Björk Þórhallsdóttir flytur, er neðst á lista helstu veðbanka heims sem spá fyrir um þau atriði sem talin eru að komist upp úr fyrra undanúrslitakvöldinu.
Hera Björk heldur áfram að falla niður lista veðbankanna sem birtur er á síðunni Eurovisionworld.com. Nú er íslenska framlagið komið niður í 28. sæti listans yfir sigurstranglegustu lögin og ef spáin fyrir fyrra undanúrslitakvöldið, sem Hera Björk tekur þátt í ásamt 14 öðrum, með lagið Scared of Heights, gengur eftir, kemst hún ekki á úrslitakvöldið. Framlagið er sagt hafa 19 prósent líkur á að komast í úrslitin og er neðst á listanum. Króatía og Úkraína eru talin hafa mesta möguleikann á að komast áfram en 96 prósent líkur eru taldar á því. Litháen er svo í þriðja sæti listans með 95 prósent líkur.
Fyrra undanúrslitakvöldið fer fram 7. maí næstkomandi, seinna undanúrslitakvöldið fer svo fram 9. maí og úrslitakvöldið sjálft þann 11. maí en keppnin fer fram í Malmö í Svíþjóð.