Tvær stórstjörnur leiða saman hesta sína í nýju lagi sem kemur út í lok mánaðar.
Samkvæmt heimildum Mannlífs hafa nýstirnið Patrik Snær Atlason eða prettyboitjokko eins og hann er stundum kallaður, og stórstjarnan Herbert Guðmundsson tekið upp lag saman, sem koma mun út í lok júní. Miðað við vinsældir þeirra beggja, má gera ráð fyrir því að um sumarsmell verði að ræða, þó tíminn verði að leiða það í ljós.
Patrik kom fram á tónlistarsviðið með lagið Skína árið 2021 og hefur verið duglegur að troða upp síðan og hefur komið nokkrum lögum til viðbótar á vinsældarlista útvarpsstöðvanna. Áður en sæti súkkulaðistrákurinn fór að syngja, þótti hann efnilegur knattspyrnumaður en hann lék meðal annars með Víkingi og ÍR, en eftir meiðsli þurfti hann að leggja knattspyrnudrauminn á hilluna.
Vart þarf að kynna Herbert Guðmundsson en hann er lifandi goðsögn á Íslandi en hann hefur verið viðriðinn íslenskt tónlistarlíf frá 1970. Stóra tækifærið kom svo með slagaranum Can´t Walk Away árið 1985 en lagið er af fyrstu sólóplötu Hebba, Dawn of the Human Revolution en lagið sló heldur betur í gegn á Íslandi og náði toppnum á vinsældarlistum. Önnur þekkt lög eftir hann eru meðal annarra Hollywood, I Believe in Love, Time og Eurovisionlagið Eilíf Ást.