Kona að nafni Carlee Russell(25) sem hvarf sporlaust í tvo daga í Alabama í síðasta mánuði hefur viðurkennt að henni hafi ekki verið rænt. Málið hefur vakið athygli í Bandaríkjunum enda hið furðulegasta. Carlee, sem er nemi í hjúkrunarfræði, hringdi í neyðarlínuna þann 13.júlí síðastliðinn og tjáði þjónustufulltrúa að hún hafi fundið smábarn ráfandi um við hlið þjóðvegarins. Þegar lögregla kom á vettvang voru Carlee og barnið á bak og burt en bifreið hennar, hárkolla og farsími fundust á veginum.
Þann 15. júlí, tveimur dögum síðar, sneri Carlee heim og tjáði rannsóknarlögreglumönnum að henni hafi verið rænt af manni sem faldi sig í rjóðri við veginn. Því næst hafi hann bundið fyrir augu hennar og farið með hana í hús þar sem hún var neydd til að afklæðast. Hún sagðist hafa náð að flýja og hlaupa í gegnum skóg þar til hún kom að heimili sínu. Ekki leið á löngu þar til lögregla áttaði sig á að frásögn Carlee var grunsamleg. Nokkrum dögum síðar játaði Carlee að hafa logið til um allt saman. Hún hafði hvorki séð barn við veginn né hafði henni verið rænt. Lögmaður Carlee sendi frá sér yfirlýsingu vegna gjörða hennar en þar kom fram að hún hefði leitað sér viðeigandi hjálpar. Ekki liggur fyrir hvers vegna verðandi hjúkrunarfræðingurinn laug að lögreglunni en greindu erlendir fréttamiðlar frá því að vísbendingar væru um að hún hafi verið hugfangin að kvikmyndinni Taken.