Hljómsveitin Holdris mun stíga á stokk og gleðja gesti NorðanPaunk, sem fer fram 2.-4. ágúst í Vestur-Húnavatnssýslu en hátíðin hefur verið haldin síðan árið 2014.
Hátíðinni er ætlað að vera fjölskyldusamkoma fyrir íslenska pönk samfélagið en rúmlega 50 hljómsveitir spiluðu á hátíðinni í fyrra. Íslensku hljómsveitirnar Graveslime, Gróa, Dys, GÓÐxÆRI og Eilíf Sjálfsfróun voru meðal þeirra en einnig komu fram erlendir listamenn á borð við Sordide, Dödsrit og Sangre de Muerdago.
Það stefnir í aðra stórkostlega hátíð í ár en fyrir utan Holdris hefur verið tilkynnt að Börn, Brött Brekka og Svartþoka ásamt fleiri sveitum muni spila fyrir gesti þetta árið en eins og áður fer hátíðin fram á Laugabakka.