Unnur Gunnarsdóttir segir að hugvíkkandi efni hafi gjörbreytt lífi sínu.
Nýjast gestur þáttarins Segðu mér á Rás 1, sem er í umsjón Sigurlaugar M. Jónasdóttur, er Unnur Helga Gunnarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdarstjóri Bakarísins Jóa Fel og fyrrverandi eiginkona Jóa Fel en hún fer þar meðal annars yfir skilnaðinn og hugvíkkandi efni sem hún segir að hafi breytt lífi sínu.
Eftir tæplega 20 ára hjónaband skildu hjónin Unnur og Jói árið 2017.
„Það var náttúrulega langur aðdragandi að skilnaðinum okkar Jóa,“ segir Unnur í viðtalinu og heldur áfram. „Og traustið var auðvitað löngu farið. En ég meina, þetta voru bara yndisleg ár og ég er mjög þakklát fyrir það allt. Svo tók við mjög erfiður tími. Skilnaðurinn var mér mjög þungbær. Það að stíga samtímis út úr hjónabandi sínu og einnig út úr fyrirtækinu sínu, sem hafði verið ástríða manns og lifibrauð í þetta langan tíma, var bara mjög stórt.“
Segir Unnur að hún hafi lifað og hrærst í fyrirtækinu og að það hafi ekki verið á planinu að skilja.
„En stundum ganga hlutirnir bara ekki upp og það er bara þannig. Og lífið fer með mann inn í allskonar ævintýri.“
Aðspurð hvort hún hafi verið lengi að jafna sig á skilnaðinum svarar Unnur: „Já, ég var alveg lengi að jafna mig og ég var alltaf að setja súrefnisgrímurnar á alla nema sjálfa mig. Af því að ég var svo ákveðin í að standa mig, ég var svo ákveðin í að vera fyrirmynd.“ Segist Unnur oft hafa fengið að heyra hvað hún væri dugleg en hún byggði sér meðal annars glæsilegt hún eftir skilnaðinn. „En það var allt í klessu inn í mér. Ég var með blæðandi sár og mér leið bara ekki vel.“
Unnur segir að í fyrstu hafi það hjálpað henni að byggja húsið en svo kom að skuldadögum. „Smá saman blæddi mér svolítið út“.
Hugvíkkandi efni
Sigurlaug spyr Unni hvernig henni hafi tekist að komast á betri stað en það var vinur Unnar sem hjálpaði henni með það. „Það kom að máli við mig kær ástvinur og sagði mér frá hugvíkkandi efnum. Ég hafði aldrei á ævinni heyrt um það eða ef ég hafði einhverjar skoðanir á því, var ég bara með fordóma. En þegar hann segir mér frá þessu þá bara finn ég í hjarta mínu að þetta er leið sem ég þarf að fara. Ég hugsaði „þetta er leiðin þín, aftur heim, þarna er ljósið þitt“. Og ég sem sagt fór þessa leið, að prófa hugvíkkandi efni. Þessi miðaldra kona í Kópavogi sem fór út í bæ og fékk sér hugvíkkandi efni.“
Unnur sagðist ekki hafa þorað að segja börnunum frá þessu, hún hafi dauðskammast sín fyrir þetta. „En ég var aldrei óttaslegin. Ég steig inn í þetta í svo mikilli einlægni og æðruleysi. Og ég vissi og treysti Guði. Þannig að ég fékk alveg afskaplega mikið út úr þessu. Ég komst aftur heim og fékk bara mig í fangið.“ Svo fór að lokum að Unnur sestist niður með börnunum því hún vildi ekki fela neitt fyrir þeim en það kom henni á óvart hversu upplýst þau voru um þessa hluti og hafi ekki verið með neina fordóma. Segir hún mikla vakningu vera meðal ungs fólks í dag um þessi mál.
Sigurlaug spyr Unni út í ferlið.
„Ég kom mér í samband við ákveðinn meðferðaraðila en það er mjög nauðsynlegt að gera það. Og svo er hægt að horfa á myndina How to Change Your Mind á Netflix, hún er afskaplega fræðandi. Og það er nauðsynlegt að hitta einhvern sem kann til verka og veit um hvað þetta snýst, bæði áður, á meðan og ekki síst eftir. Þessi efni eru ekki fyrir alla, það þarf að fara gætilega að þeim og umgangast þau með virðingu.“ Unnur segist hafa fengið stórt ferðalag, eins og þetta kallast. „Ég fékk svo stórt ferðalag. Ég sá hvernig myrkrið fór út úr mér og hvernig ljósið fór inn í mig.“
Hægt er að hlusta á allt viðtalið á vefsíðu RÚV.